Erlent

Bretar og Bandaríkjamenn segja Írani hafa gert árás á olíuskip

Sighvatur Jónsson skrifar
Annað skipanna sem varð fyrir árásinni.
Annað skipanna sem varð fyrir árásinni. ISN/AP
Bresk stjórnvöld taka undir með bandarískum yfirvöldum og segja Írani hafa gert árásir á olíuskip í Ómanflóa. Stjórnin í Íran þvertekur fyrir að bera ábyrgð á árásunum. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til þess að ekki verði aukið frekar á spennu vegna málsins. Óháðan aðila þurfi til að rannsaka hvað gerðist.

Árás var gerð á tvo olíuflutningaskip í Ómanflóa á fimmtudag nærri Hormússundi, þar sem Persaflói tengist Ómanflóa.

Skipin voru frá Noregi og Japan. Gerð var árás á fjögur önnur skip í síðasta mánuði. Enginn fórst í árásunum.

Bandaríski herinn hefur birt myndband sem er sagt sýna íranska sérsveitarliða fjarlægja tundurdufl sem festist á japanska olíuskipinu en sprakk ekki. Íranir neita aðild að málinu.

Forstjóri japanska félagsins sem gerir út skipið hefur eftir áhöfn þess að eitthvað fljúgandi hafi hæft það.

Ásakanir Bandaríkjamanna á hendur Írönum eru settar í samhengi við versnandi samskipti þjóðanna í valdatíð Donald Trumps.

Deilt um málið í breskum stjórnmálum

Utanríkisráðherra Bretlands, Jeremy Hunt, kennir Írönum um og gagnrýnir leiðtoga bresku stjórnarandstöðunnar fyrir hræðsluáróður í garð Bandaríkjamanna.

„Maður hefði haldið að það væri býsna augljóst hverjir bera ábyrgð á þessu þegar við höfum myndbandsupptökur sem sýna hvað Íranir hafa verið að gera. En, nei, fyrir Jeremy Corbyn er það allt Bandaríkjamönnum að kenna og þetta er sami maðurinn, vel á minnst, sem neitaði að fordæma Pútín eftir eiturárásirnar í Salisbury,“ segir Hunt.

Sameinuðu þjóðirnar reyna að draga úr spennu og hvetja til óháðrar rannsóknar. 

„Við teljum mjög mikilvægt að forðast meiriháttar átök við Persaflóa,“ segir Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×