Innlent

Miklu stolið úr Bauhaus

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Lögregluaðgerðir fóru fram í Bauhaus í vor.
Lögregluaðgerðir fóru fram í Bauhaus í vor. Fréttablaðið/Pjetur
Grunur leikur á að miklu af vörum hafi verið stolið úr byggingavöruversluninni Bauhaus í Grafarholti. Einnig að brotin hafi staðið yfir í langan tíma. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru að minnsta kosti tveir menn tengdir málinu. Annar þeirra byggingaverktaki af landsbyggðinni.

Í vor fóru fram lögregluaðgerðir á tveimur stöðum. Í versluninni sjálfri og í heimabæ verktakans. En ekki liggur fyrir hvort eða hversu mikið af verðmætum var endurheimt.

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu lauk í júní og er málið nú komið inn á borð til ákærusviðs. María Káradóttir hjá ákærusviði vildi ekki tjá sig efnislega um málið en tjáði Fréttablaðinu að ákvörðun um ákæru hefði ekki verið tekin né hversu margir væru grunaðir í málinu.

„Vegna rannsóknarhagsmuna getum við ekki tjáð okkur um málið á þessu stigi,“ segir María. „Þetta mál er nú í skoðun hjá okkur. Stundum þarf að vísa málum aftur til lögreglu til frekari rannsóknar.“

Verðmæti þeirra eigna sem grunur leikur á að hafi verið stolið liggur ekki fyrir en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er það umtalsvert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×