Íslenski boltinn

Helsingborg vill fá Brynjólf Darra í stað Andra Rúnars

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brynjólfur Darri hefur komið við sögu í sjö deildarleikjum í sumar.
Brynjólfur Darri hefur komið við sögu í sjö deildarleikjum í sumar. vísir/vilhelm
Sænska úrvalsdeildarfélagið Helsingborg hefur gert Breiðabliki tilboð í framherjann Brynjólf Darra Willumsson samkvæmt heimildum Expressen.

Fyrr í vikunni greindi Fótbolti.net frá því að sænskt félag hefði boðið í Brynjólf. Nú er komið í ljós að umrætt félag er Helsingborg sem er nýliði í sænsku úrvalsdeildinni.

Helsingborg er nýbúið að selja Andra Rúnar Bjarnason til Kaiserslautern og þarf að fylla skarð Bolvíkingsins sem gekk í raðir sænska liðsins fyrir síðasta tímabil.

Í samtali við Expressen vildi Andreas Granqvist, spilandi yfirmaður fótboltamála hjá Helsingborg, ekki staðfesta að félagið væri búið að bjóða í Brynjólf en neitaði því heldur ekki. Granqvist sagði að Helsingborg væri á höttunum eftir framherja og markverði.

Helsingborg er í 13. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 13 stig eftir 13 umferðir. Gamla markamaskínan Henrik Larsson tók nýverið við þjálfun Helsingborg.

Brynjólfur hefur komið við sögu í tíu leikjum með Breiðabliki í sumar. Hann hefur leikið 13 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Eldri bróðir Brynjólfs, Willum Þór, gekk í raðir BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi fyrr á þessu ári.

Breiðablik er í 2. sæti Pepsi Max-deildar karla með 22 stig, fjórum stigum á eftir toppliði KR. Breiðablik tekur á móti HK annað kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×