Erlent

Dómsmálaráðherrann segir Trump aldrei hafa beðið um að hermenn yrðu sendir til að kveða niður mótmæli

Andri Eysteinsson skrifar
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/John Bazemore

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, William Barr, segir Bandaríkjaforseta ekki hafa gengið það langt að óska eftir því að tíu þúsund hermenn verði kallaðir út til þess að aðstoða lögreglu við að kveða niður óeirðir og mótmæli í bandarískum borgum.

„Forsetinn bað hvorki um, né gaf í skyn, að við ættum að kalla til herlið,“ sagði Barr í viðtali í sjónvarpsþáttunum „Face the Nation on Sunday“ á CBS. „Það hefur verið gert í sögu landsins. Við reynum að forðast það og það er gleðiefni að það hafi tekist,“ sagði Barr.

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Mark Esper, lýsti sig ósammála hótunum forsetans sem sagði það koma til beita hernum til að stöðva mótmæli sem hafa blossað upp víða um landið í kjölfar morðsins á George Floyd sem lést í haldi lögreglu. Fleiri stjórnmálamenn úr röðum Repúblikanaflokksins hafa einnig lýst sig ósammála forsetanum, þar á meðal fyrrum ráðherra utanríkismála, Condoleeza Rice.

Í viðtalinu sagði Barr að ríkisstjórnin hefði ekki gengið of langt þegar forsetinn hótaði að beita hernum. „Skoðun okkar var sú að við ættum bara að nota herinn sem neyðarúrræði. Það voru allir á sömu blaðsíðu,ׅ“ sagði Barr.

Ráðherrann var einnig spurður út í það hvort það stæðist í raun og veru stjórnarskrá að forseti kallaði herinn út.

Barr sagði að forsetinn hefði leyfi til þess að kalla út hermenn þrátt fyrir að samþykki ríkisstjóra skorti samkvæmt uppreisnarlögum sem sett voru í stjórnartíð Thomas Jefferson árið 1807. Lögunum var síðast beitt af George W. H. Bush árið 1992.

Þjóðvarðlið hefur stutt lögreglu í mótmælunum en forsetinn tísti í morgun að liðið verði kallað til baka vegna þess góða árangurs sem hefur náðst. Varaði hann þó við því að þjóðvarðlið gæti snúið aftur sé þess þörf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×