Íslenski boltinn

Arnar Gunnlaugs: Þeir kunna þetta og við þurfum að gjöra svo vel að læra það

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar var nokkuð sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld.
Arnar var nokkuð sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld. Vísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var nokkuð brattur þrátt fyrir 1-0 tap gegn KR í Meistarakeppni KSÍ í kvöld þar sem Íslands- og bikarmeistarar síðasta árs mætast. 

„Bara þetta know how með það hvernig á að vinna leiki. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu KR liði. Þeir hafa sigurhefðina sem við erum að sækjast eftir. Mér fannst við spila vel í dag, mér fannst heilt yfir meiri fótboltabragur yfir okkar liði en þeir bara kunna þetta og við þurfum að gjöra svo vel að læra það til að komast á þetta stig sem KR er búið að vera á í fleiri áratugi,“ sagði Arnar um muninn á liðunum í dag.

„Mér fannst þetta hörkuleikur, það var barist og hátt tempó en það vantaði aðeins upp á gæðin. Þegar við vorum komnir í góða stöðu til að gefa fyrir þá klikkaði síðasta sendingin eða fyrirgjöfin, það vantaði herslumuninn en heilt yfir mjög sáttur með hvernig þetta þriggja leikja prógram fyrir Íslandsmótið hefur farið þó það sé sárt að ná ekki titli í dag en ég er samt nokkuð sáttur við frammistöðu minna stráka,“ sagði Arnar einnig um muninn á til að mynda leik dagsins og æfingaleikjum Víkinga þar sem liðið skoraði þrjú mörk gegn Gróttu og fjögur gegn Stjörnunni.

„Það var titill í boði og það er alltaf gott að fá titil á ferilskránna. KR hefur stolt og sigurhefð svo þeim langaði í titil líka, vel mætt og völlurinn fínn. Þetta gefur góða raun fyrir sumarið og við stóðum okkur vel en þurfum að skerpa á nokkrum hlutum sem við munum gera fyrir fyrsta leik á móti Fjölni í næstu viku,“ sagði Arnar að lokum varðandi það sem var undir í leik kvöldsins en oft hafa leikir sem þessir verið titlaðir meira sem æfingaleikir en mótsleikir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×