Íslenski boltinn

Kristján Gauti með Stjörnunni eftir fjögur ár í dvala?

Sindri Sverrisson skrifar
Kristján Gauti Emilsson var meðal annars valinn í A-landsliðshóp í janúar árið 2014.
Kristján Gauti Emilsson var meðal annars valinn í A-landsliðshóp í janúar árið 2014. Vísir/Arnþór

Kristján Gauti Emilsson, fyrrverandi leikmaður unglingaliðs Liverpool, gæti verið að taka fram fótboltaskóna eftir að hafa ekki spilað fótbolta í fjögur ár.

Svo gæti farið að Kristján Gauti verði í leikmannahópi Stjörnunnar í sumar. Þetta kom fram hjá Gumma Ben í upphitunarþætti fyrir Pepsi Max-deildina í kvöld en Gummi tók þó fram að um orðróm væri að ræða.

„Ég hef heyrt þetta, að Kristján Gauti Emilsson sé jafnvel að taka fram skóna,“ sagði Gummi. Kristján Gauti lék með FH hér á landi og var hjá NEC Nijmegen í Hollandi árin 2014-2016 áður en hann hætti skyndilega í fótbolta. Þessi 27 ára gamli sóknarmaður, sem var á mála hjá Liverpool árin 2009-2012, hefur því lítið verið í umræðunni síðustu ár.

„Guð hjálpi manni að taka fram skóna eftir fjögur ár í dvala,“ sagði Gummi og Atli Viðar Björnsson tók undir það, en sagði þetta jafnframt afar athyglisvert ef satt reyndist:

„Hann er einn allra hæfileikaríkasti leikmaður sem ég hef spilað með. Mér fannst geggjað að spila með honum,“ sagði Atli Viðar.

„Ég veit að Kristján Gauti er í frábæru, líkamlegu formi, en ef hann hefur ekki sparkaði í bolta í fjögur ár þá veit ég ekki hvort að þetta sé góð ákvörðun,“ sagði Atli Viðar í þættinum sem er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×