Íslenski boltinn

Kristinn braut loks ísinn eftir 92 leiki án marks | Sjáðu markið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristinn fagnaði marki sínu í gær vel og innilega.
Kristinn fagnaði marki sínu í gær vel og innilega. Vísir/Daniel Thor

Breiðablik vann Gróttu 3-0 í fyrstu umferð Pepsi Max deildarinnar í gær og var leikurinn merkilegur fyrir margar sakir. Var þetta til að mynda fyrsti leikur Gróttu í efstu deild. Þá var þetta fyrsti deildarleikurinn sem Kristinn Steindórsson skorar í síðan í október árið 2014.

Kristinn hóf leikinn á varamannabekknum en þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum kom hann inn fyrir Brynjólf Andersen Willumsson. Það var svo í uppbótartíma leiksins sem Guðjón Pétur Lýðsson átti sendingu á Kristinn sem lék á varnarmenn Gróttu áður en hann setti boltann í slá og inn. Stórkostlegt mark og algjörlega óverjandi fyrir Hákon Rafn Valdimarsson í marki gestanna. 

Markið ásamt viðtali sem var tekið eftir leik má sjá og heyra hér að neðan.

Hinn þrítugi Kristinn var mikill markaskorari á sínum yngri árum en hefur ekki átt sjö dagana sæla fyrir framan markið undanfarin ár. Raunar er það svo að hann hefur ekki skorað mark sem hefur verið skráð síðan hann skoraði í 3-2 tapi íslenska landsliðsins gegn Bandaríkjunum er liðin mættust í æfingaleik í Los Angeles í janúar árið 2016.

Það eru því komin fjögur og hálft ár síðan Kristinn þandi netmöskvana í leik. Það þarf svo að fara enn lengra aftur í tímann til að finna síðasta mark hans með félagsliði. Vert er þó að nefna að Kristinn skoraði einnig í landsleik í janúar 2015 en þá lagði íslenska liðið Kanada af velli með tveimur mörkum gegn einu. 

Alls hefur Kristinn skorað tvö mörk í aðeins þremur landsleikjum.

Kristinn skoraði síðast í deildarleik þegar Halmstad vann Falkenberg 4-0 í október árið 2014. Síðan þá hefur Kristinn leikið með Columbus Crew í Bandaríkjunum, GIF Sundsvall í Svíþjóð og svo FH í Pepsi Max deildinni 2018 og 2019. 

Kristinn hafði því leikið 92 deildarleiki frá árinu 2014 án þess að koma knettinum í markið áður en hann söng í netinu í gær.

Klippa: Magnað mark og viðtal við Kristinn Steindórsson

Undir lokin hjá FH var Kristinn farinn að spila sem djúpur miðjumaður en Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, stefnir á að nota Kristinn ofar á vellinum. Það er ljóst að honum líður hvað best í grænu treyjunni en skoraði 34 mörk fyrir Blika frá 2007-2011.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×