Skoðun

Svartir gluggar og réttindabaráttan

Nikólína Hildur Sveinsdóttir skrifar

Nú mótmæla andstæðingar göngugötunnar Laugavegar með því að gera glugga í ákveðnum verslunarrýmum götunnar svarta á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní. Í ljósi ólgunnar og atburðarrásar réttindabaráttu svarts fólks í Bandaríkjunum eru þessi vinnubrögð forkastanleg.

Í síðustu viku mátti sjá svarta ferninga víða á samfélagsmiðlum á BlackoutTuesday sem samstöðutákn mótmælendanna og þeirra sem þá studdu. Atburðarás þessi mun marka tímamót í mannkynssögunni, Bandaríkin eru á barmi borgarastríðs. Á Íslandi sjá tækifærissinnar sér leik á borði og henda upp svörtum ruslapokum í glugga.

Hvað voru skipuleggjendur þessara glugga„mótmæla“ að hugsa þegar þessi ákvörðun var tekin? Var þeim alveg sama eða vita þau bara ekki betur? Hvert sem svarið er á þetta fólk að skammast sín. 

Þetta er ekki aðeins hreinn og beinn stuldur á hugmynd heldur gerir þessi verknaður lítið úr réttindabaráttu þeirra minnihlutahópa sem eru að mótmæla daglega um heim allan. Þá spyr ég enn fremur: hverju vilja þau ná fram með þessu uppátæki? Er fólk líklegra til að líta inn í verslunina ef það sér ekki inn í hana? Það efa ég.

Mikilvægi göngugatna, hvort sem þú ert hlynnt/ur þeim eða á móti þeim framkvæmdum, fölnar í samanburði við mannslífin sem hafa verið og eru enn misst í krafti lögregluofbeldis og kerfisbundinnar mismununar víðsvegar um heiminn. Til Miðbæjarfélagsins hef ég eftirfarandi að segja: Skammist ykkar. Fjarlægjið þessa svörtu ruslapoka úr gluggunum og takið ykkar innri mann til endurskoðunar.

Höfundur er forseti Ungra jafnaðarmanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×