Innlent

Tíu ára stúlka missti meðvitund í árekstri við rafmagnshlaupahjól

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Áreksturinn varð í Keflavík.
Áreksturinn varð í Keflavík. Vísir/vilhelm

Piltur á rafmagnshlaupahjóli ók á tíu ára stúlku í Keflavík í vikunni með þeim afleiðingum að hún skall með höfuðið í jörðina og missti meðvitund, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum.

Stúlkan var flutt með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hún dvaldi meðan hún var að jafna sig. Málið var tilkynnt til Barnaverndarnefndar.

Þá kviknaði eldur í bifreið við Ásbrú í nótt og reyndist bíllinn alelda þegar slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja komu á staðinn. Eldurinn var slökktur. Fyrr í vikunni hafði komið upp eldur í gámi í Njarðvík. Mikinn reyk lagði frá honum og var fólk í nærliggjandi húsum beðið um að loka gluggum. Slökkvilið mætti á staðinn og réð niðurlögum eldsins.

Ökumaður sem ekki virti stöðvunarskyldu við gatnamót Ferjutraðar og Klettatraðar í Reykjanesbæ ók inn í hlið bifreiðar sem ekið var eftir síðarnefndu götunni. Ökumenn beggja bifreiðanna, sem og tveir farþegar í þeim, sögðust finna til verkja eftir óhappið. Bílarnir voru óökufærir og fjarlægðir af slysstað með dráttarbifreið.

Þá ók ökumaður á vegrið milli akreina á Grindavíkurvegi þegar hann var að teygja sig eftir GPS-tæki sem fallið hafði á gólf bifreiðarinnar.

Flytja þurfi karlmann með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir að hann féll úr stiga þegar hann var við vinnu á verkstæði sínu. Stiginn rann undan honum og féll hann í gólfið. Ekki er talið að maðurinn hafi slasast alvarlega við fallið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×