Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: Al­gjör­lega á mína á­byrgð hvernig síðari hálf­leikurinn fór

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhannes Karl tók leikinn á sig í kvöld.
Jóhannes Karl tók leikinn á sig í kvöld. vísir/bára

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn vera þokkalegur. Við gefum klaufalegt víti sem kemur þeim inn í leikinn en fyrri hálfleikurinn var allt í lagi. Ég var þokkalega sáttur við hann,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, eftir 6-2 tapið gegn Víkingi í kvöld.

„Ég geri svo breytingar í hálfleik sem breyttu leikskipulaginu okkar og virkaði engan veginn. Það er algjörlega á mína ábyrgð hvernig síðari hálfleikurinn fór. Víkingarnir gengu á lagið aftur og aftur og það er gjörsamlega á mína ábyrgð.“

„Mér fannst leikmennirnir vera að reyna gera það sem ég bað þá um í síðari hálfleik en þetta var ekki rétt að gera þessar breytingar í hálfleik. Fyrri hálfleikurin var fínn, það var jafnræði með liðunum, en eins og ég segi þá eru það þessar breytingar sem voru ekki réttar. Algjör mistök og það klúðrar leiknum.“

Meðalaldur Skagamanna undir lok leiks var ekki hár og Jóhannes Karl er ánægður með að gefa þeim mínútur en hann segir að hann hafi viljað gefa þeim mínútur í öðrum leik.

„Við erum með fullt af ungum og sprækum strákum. Það er verst að ég hafi ekki gefið þeim betra tækifæri til þess að sýna hversu góðir þeir eru. Það er jákvætt að þeir fái mínútur en að þeir hafi þurft að koma inn í svona leik er leiðinlegt.“

„Þetta er hörkuhópur sem við erum með og lið sem hefur sýnt að þeir geta unnið alla á vellinum. Það þýðir ekkert að væla þessi úrslit of lengi og það er stutt í næsta leik. Ég get lofað þér því að strákararnir eru strax farnir að fókusera á það. Við látum þetta ekki trufla okkur og við höfum trú á því að við getum náð í úrslit. Við ætlum að ná í þrjú stig gegn Stjörnunni á heimavelli,“ sagði Jóhannes Karl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×