Viðskipti innlent

Afkoma Arion „umtalsvert“ betri en spáð var

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Arion í Borgartúni.
Höfuðstöðvar Arion í Borgartúni. Vísir/Vilhelm

Rekstur Arion banka gekk „umtalsvert“ betur á síðasta ársfjórðungi en spár gerðu ráð fyrir, ef marka má orðsendingu bankans til Kauphallarinnar. Í drögum að uppgjöri annars ársfjórðungs segir að afkoma fjórðungsins hafi numið 4,9 milljörðum króna og að reiknuð arðsemi á ársgrundvelli hafi verið 10,5 prósent.

Uppgjörið er sagt litast af jákvæðri þróun markaða á fjórðungnum. Þannig hafi hreinar fjármunatekjur verið jákvæðar um 2,7 milljarða króna, rekstraráhrif félaga til sölu hafi verið óveruleg og að niðurfærsla útlána numið næstum einum milljarði. Það sé „veruleg lækkun“ frá fyrsta fjórðungi. Heilt yfir hafi afkoman verið „umtalsvert umfram það sem spár greiningaraðila gera ráð fyrir.“

„Rétt er að taka fram að áfram er umtalsverð óvissa í starfsumhverfi bankans og þá fyrst og fremst tengd þróun COVID-19 faraldursins og þeim áhrifum sem faraldurinn kann að hafa á íslenskt efnahagslíf. Sú óvissa snýr fyrst og fremst að þróun eignasafns bankans svo sem útlánasafns og verðbréfastöðu,“ segir í orðsendingunni til Kauphallarinnar.

Fjárhagslegur styrkur Arion banka er varðar eigið fé og lausafé sé áfram mikill sem auðveldi bankanum að takast á við óvenjulegar aðstæður. Sem fyrr segir er aðeins um að ræða drög að uppgjöri fyrir annan ársfjórðung en bankinn stefnir að því að birta formlegt uppgjör þann 29. júlí.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×