Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Valur 1-3 | Valsmenn efstir eftir sigur á tíu Fjölnismönnum

Sindri Sverrisson skrifar
Lasse Petry fagnar marki sínu í kvöld.
Lasse Petry fagnar marki sínu í kvöld. vísir/daníel

Valsmenn eru komnir á topp Pepsi Max-deildar karla í fótbolta eftir 3-1 sigur á Fjölni í Grafarvogi. Fjölnismenn voru manni færri frá 57. mínútu eftir að Ingibergur Kort Sigurðsson missti stjórn á skapi sínu.

Valsmenn, sem léku án Patrick Pedersen vegna meiðsla, voru fljótir að ná forystunni. Lasse Petry kom þeim yfir með sínu fyrsta marki í deildinni í sumar, þegar hann skaut utarlega úr teignum í kjölfarið á hornspyrnu. Fjölnismönnum hafði mistekist að koma boltanum í burtu, eftir skalla Hauks Páls Sigurðssonar, og Daninn nýtti sér það.

Fjölnismenn voru með sama lið og náði í stig gegn KR í síðustu umferð, en þeim gekk illa að búa sér til færi í fyrri hálfleiknum. Raunar hafði lítið verið um færi þegar Valur komst í 2-0 fimm mínútum fyrir hálfleik, með afar slysalegu sjálfsmarki heimamanna.

Valgeir Lunddal Friðriksson átti sendingu fyrir markið þar sem Grétar Snær Gunnarsson reyndi að koma boltanum í burtu en spyrnti í Peter Zachan sem skoraði óvart sjálfsmark. Fjölnismenn, sem voru án Christian Sivebæk vegna meiðsla, voru afar óánægðir með að ekki skyldi dæmd aukaspyrna á Val í aðdragandanum.

Fjölnismenn stóðu í ströngu í kvöld en höfðu ekkert upp úr krafsinu gegn toppliði Vals.VÍSIR/DANÍEL

Fjölnir hleypti strax spennu í leikinn í upphafi seinni hálfleiks sem liðið hóf af krafti. Kristinn Freyr Sigurðsson fékk reyndar dauðafæri til að koma Val í 3-0 en strax í kjölfarið minnkaði Jóhann Árni Gunnarsson muninn í 2-1 eftir góða sókn heimamanna.

Það var því allt í járnum þegar varamaðurinn Ingibergur Kort Sigurðsson fékk rautt spjald fyrir að slá í bræði í Hauk Pál Sigurðsson, sem hafði viljandi stöðvað álitlega skyndisókn með því að sparka í Ingiberg. Haukur Páll fékk gult spjald.

Manni fleiri höfðu Valsmenn góða stjórn á leiknum og Sigurður Egill Lárusson, sem hafði klúðrað svakalegu dauðafæri skömmu áður, innsiglaði sigurinn með glæsilegu marki.

Af hverju vann Valur?

Valsmenn voru betri í leiknum og verðskulduðu forystuna í hálfleik en það hjálpaði þeim mjög mikið að rauða spjaldið skyldi fara á loft þegar enn var rúmur hálftími eftir af leiknum. Það var að vissu leyti vendipunktur í leiknum því Fjölnismenn höfðu litið vel út í seinni hálfleiknum, þó Valsmenn hefðu líklega landað sigrinum samt sem áður.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn Freyr bjó til góð færi fyrir félaga sína og hefði átt að skora sjálfur, og þeir Sigurður Egill og Aron Bjarna voru Fjölnisvörninni einnig erfiðir.

Hvað gekk illa?

Valsmenn hefðu getað nýtt færin sín betur og Pedersen hefði sjálfsagt notið sín vel í þessum leik, en þeir uppskáru samt þrjú mörk. Fjölnismenn börðust vel og áttu fínan leik eftir að þeir lentu undir snemma, en skúrkur leiksins verður að teljast Ingibergur Kort sem náði ekki að hemja skap sitt.

Hvað gerist næst?

Fjölnismenn fara í Vesturbæinn í annað sinn á skömmum tíma og mæta KR í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á fimmtudagskvöld. Valsmenn mæta hins vegar ÍA á Hlíðarenda á föstudagskvöld, í bikarnum. Fjölnir tekur á móti ÍA í næstu umferð í deildinni miðvikudaginn 5. ágúst og Valur sækir FH heim sama kvöld.

Aron Bjarnason á ferðinni í Grafarvogi í kvöld.

Ásmundur: Tveir leikmenn sparka í hvorn annan

„Við erum í erfiðri stöðu í hálfleik, 2-0 undir, en leikurinn er svo aftur að jafnast, við minnkum muninn og erum þokkalega líklegir, þegar það kemur upp atvik þar sem að ítrekað er reynt að þruma okkar leikmann niður. Það tekst að lokum, hann er pirraður á eftir og gerir hlut sem að hann á ekki að gera. En þarna eru tveir leikmenn sem reyna að sparka í hvorn annan, annar fær gult en hinn rautt. Það þarf auðvitað að skilgreina reglurnar með það,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, sem vildi ekki gera of mikið úr afdrifaríku „sparki“ Ingibergs, sem reyndar sló frá sér.

„Ingibergur átti auðvitað ekki að gera þetta. Það er klárt og hann veit það sjálfur,“ sagði Ásmundur. Nánar er rætt við hann hér.

Heimir: Fínt að hann lét reka sig af velli

„Það er fínt að vinna. Mér fannst við byrja þetta vel, náðum inn tveimur mörkum en náðum ekki að fylgja því nægilega vel eftir. Þeir lágu til baka og beittu skyndisóknum og við hefðum mátt vera nær hver öðrum í varnarleiknum,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals.

„Við fengum möguleika til að klára leikinn í byrjun seinni hálfleiks en gerðum það ekki. Þeir komust inn í leikinn en sem betur fer náðum við að klára þetta. Það hjálpaði okkur [að þeir fengju rautt spjald] því eftir að þeir skoruðu markið sitt þá tvíefldust þeir. Það var fínt að hann lét reka sig af velli. Ég held að það hafi verið klárt rautt spjald,“ sagði Heimir, sem er eins og fyrr segir með Valsmenn á toppnum.

„Það er spilað þétt og menn þurfa að vera á tánum. Þetta er hægt og bítandi að verða betra og betra,“ sagði Heimir. Valsliðið þurfti að spjara sig án Pedersen í kvöld:

„Það er ekkert mál. Auðvitað er Patrick Pedersen frábær leikmaður en það kemur maður í manns stað. Við díluðum að mínu mati vel við það. Hann verður klár á föstudaginn,“ sagði Heimir en Valur mætir þá ÍA í bikarnum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira