Innlent

Beittu lögreglutökum á fimmtán ára stúlku

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan segir stúlkuna hafa látið ófriðlega í Breiðholti í gærkvöldi. 
Lögreglan segir stúlkuna hafa látið ófriðlega í Breiðholti í gærkvöldi.  Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Lögreglan segist hafa beitt 15 ára stúlku valdi í Breiðholti í gærkvöld, sem hafi verið ölvuð og látið ófriðlega. Dagbók lögreglunnar ber með sér að þegar lögreglumenn höfðu afskipti af stúlkunni við verslunarmiðstöð á ellefta tímanum hafi hún neitað að segja til nafns eða gefa upp kennitölu.

Hún hafi því næst kastað stól að lögreglumönnunum, reynt að slá þá og neitað að fara að fyrirmælum þeirra. Af þeim sökum segist lögreglan hafa fært stúlkuna „í lögreglutök“ án þess að það sé útskýrt nánar. Henni hafi hins vegar að endingu verið sleppt í hendur móður sinnar. Ekki fylgir sögunni hvort hún hafi sótt hana í verslunarmiðstöðina eða á lögreglustöð eða hvort af þessu verði einhver eftirmál.

Tvö innbrot komu jafnframt inn á borð lögreglu ef marka má dagbók hennar. Þannig á að hafa verið brotist inn í veitingahús á Laugavegi á þriðja tímanum. Ekki er þó vitað hverju var stolið, „mögulega áfengi“ giskar lögreglan.

Skömmu síðar segir lögreglan að brotist hafi verið inn í verslun í Hamraborg í Kópavogi. Þar á innbrotsþjófur að hafa brotið rúðu, farið inn og látið greipar sópa. Er hann t.d. sagður hafa stolið peningum úr versluninni og ætla má að málið sé til rannsóknar.

Karlmaður var aukinheldur handtekinn í Vesturbænum síðdegis í gær, lögreglan segir hann bæði hafa ræktað fíkniefni og bruggað sitt eigið áfengi. Hann var fluttur í fangaklefa þar sem hann hefur hírst síðustu tólf tímana.

Jafnframt er eitthvað um vímuefnaakstur í dagbók lögreglu auk þess sem minnst er á farþega sem neitaði að greiða leigubílareikninginn sinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×