Enski boltinn

Klopp: Liverpool getur ekki hagað sér eins og Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, setur á sig verðlaunapeninginn fyrir sigur Liverpool í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2019-20.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, setur á sig verðlaunapeninginn fyrir sigur Liverpool í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2019-20. EPA-EFE/Paul Ellis

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur tjáð sig um rólegheit ensku meistaranna á leikmannamarkaðnum í sumar.

Liverpool hefur aðeins keypt gríska bakvörðinn Kostas Tsimikas sem kostaði félagið 11,7 milljónir punda. Á sama tíma hefur Chelsea eytt um 200 milljónum punda í nýja leikmenn.

Jürgen Klopp segir að óvissan vegna kórónuveirunnar skipti greinilega sum félög minna máli.

„Liverpool hefur náð árangri með því að vera það félag sem við erum. Við getum ekki breytt því yfir nótt og ákveða að við ætlum núna að haga okkur eins og Chelsea,“ sagði Jürgen Klopp í viðtali við BBC Radio 5 Live.

„Félög eru í ólíkum aðstæðum og við búum núna við mikla óvissu í heiminum,“ sagði Klopp.

„Hjá sumum félögum virðast það skipta minna máli hversu óútreiknanleg framtíðin er og það er af því að þau eru í eigu þjóða eða valdhafa í olíuríkjum. Það er bara sannleikurinn,“ sagði Jürgen Klopp.

„Við erum öðruvísi félag. Við komust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum, unnum Meistaradeildina árið eftir og unnum svo ensku úrvalsdeildina í ár og allt með því að vera félagið sem við erum,“ sagði Jürgen Klopp.

Þetta er annar sumarglugginn í röð sem Liverpool eyðir nánast ekki neinu í nýja leikmenn. Í fyrrasumar eyddi Liverpooll 1,3 milljón punda í hollenska miðvörðinn Sepp van den Berg og fékk síðan markverðina Adrian og Andy Lonerganá frjálsri sölu. Liverpool keypti síðan Japanann Takumi Minamino fyrir 7,5 milljónir punda í janúar.

Þrátt fyrir þennan litla liðsstyrk þá vann Liverpool ensku deildina með átján stiga mun en þetta var eins og flestir vita fyrsti Englandsmeistaratitill félagsins í þrjátíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×