Skoðun

Aldrei greitt hér tekju­skatt

Freyr Frostason skrifar

„Arnarlax tapaði 450 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi,“ var fyrirsögn í Markaðinum, viðskiptablaði Fréttablaðsins í vikunni. Þetta hefðu verið óvænt tíðindi fyrir þau sem horfðu á góðan fjarfund Landverndar og vestfirsku náttúruverndarsamtakanna Rjúkanda í síðustu viku þar sem fjallað var um fiskeldi á Vestfjörðum. Á þeim fundi fór Einar K. Guðfinnsson digrum orðum um góða afkomu í sjókvíaeldisfyrirtækjanna sem starfa hér við land.

Þetta voru þó furðuleg orð hjá talsmanni þessa mengandi iðnaðar því Salmar, hið norska móðurfélag Arnarlax, hafði fyrr í þessum mánuði sagt frá hörmulegri afkomu dótturfélagsins, þeirri hinni sömu og Markaðurinn sagði svo frá í nýjasta tölublaði sínu. Einar átti sem sagt að vita betur, og vissi reyndar örugglega betur.

Staðreyndin er sú að ekkert sjókvíaeldisfyrirtækjanna sem eru með rekstur hér við land hefur nokkru sinni skilað slíkri afkomu að þau hafi greitt tekjuskatt. Aldrei nokkurn tíma. Og afar hæpið er að þau geri það um fyrirsjáanlega framtíð. Annars vegar vegna þess að uppsafnað tap þeirra hleypur á milljörðum, og hins vegar vegna þess að þau eru flest að stærstum hluta í erlendri eigu. Það þýðir að móðurfélögin hafa milligöngu um eða selja þeim búnað, fóður, ráðgjöf og ýmsa aðra þjónustu. Þannig geta þau stýrt því hvar mögulegur hagnaður er tekinn út og tekjuskattar greiddir á endanum. Allt er það innan laga og reglna sem gilda um alþjóðleg viðskipti.

Þannig er til dæmis stærsti eigandi sjókvíaeldisfyritæksins Arctic Fish Farm, sem starfar á Vestfjörðum, aflandsfélagið Bremesco Holding og er það skráð á Kýpur.

Einari varð tíðrætt á fundinum um útfltningsverðmæti sjókvíaeldislaxins en hann var hins vegar ófáanlegur til að ræða hvað verður í raun eftir á Íslandi þegar búið er að greiða móðurfélögunum og öðrum gjaldeyri fyrir búnað, fóður, ráðgjöf og aðra þjónustu að utan. Það eina sem við vitum fyrir víst að verður eftir er stórfelld mengunin frá sjókvíunum í íslenskum fjörðum og erfðablöndun við villtu laxastofnanna okkar vegna sleppifisks úr kvíunum.

Höfundur er arkitekt og formaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins - The Icelandic Wildlife Fund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×