Innlent

Stefnt að því að kynna frekari aðgerðir á morgun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í Safnahúsinu í síðustu viku þegar aðgerðapakki tvö var kynntur.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í Safnahúsinu í síðustu viku þegar aðgerðapakki tvö var kynntur. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin áformar að kynna frekari efnahagsaðgerðir á morgun, þriðjudag, til að koma til móts við þau fyrirtæki sem orðið hafa fyrir miklu tekjutapi vegna kórónuveirufaraldursins.

Samkvæmt heimildum Vísis munu aðgerðirnar sérstaklega beinast að fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Þá má einnig búast við því að framhald svokallaðrar hlutabótaleiðar verði kynnt á morgun.

Fyrst var greint frá málinu á vef Ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að málin verði rædd á ríkisstjórnarfundi á morgun.

Ferðaþjónustan hefur orðið fyrir algjöru tekjufalli vegna kórónuveirunnar enda eru nú miklar ferðatakmarkanir í gildi um allan heim.

Fyrirtæki í greininni bundu miklar vonir við aðgerðapakka tvö sem stjórnvöld kynntu í liðinni viku en fjölmargir lýstu yfir vonbrigðum með pakkann. Meira þyrfti að koma til og þörf væri á sértækari aðgerðum fyrir ferðaþjónustuna.

„Það var náttúrulega hreinlega ekki tekið á þeim málum sem við biðum eftir. En það má segja að það jákvæða er að menn eru að átta sig á því smám saman hvað þetta er stórt og þær aðgerðir sem voru til umræðu tóku ekki nægjanlegt tillit til þess. Þá er kannski ekkert óeðlilegt að menn þurfi aðeins lengri tíma. En það er afar mikilvægt að það komi einhverjar línur fyrir mánaðamót,“ sagði Kristófer Oliversson, formaður FHG - Fé­lags fyr­ir­tækja í hót­el­rekstri og gistiþjón­ustu og fram­kvæmda­stjóri Center hotels, til að mynda í samtali við Vísi í liðinni viku.

Kallaði hann meðal annars eftir svörum frá stjórnvöldum fyrir komandi mánaðamót varðandi það hvert framhald hlutabótaleiðarinnar yrði en það úrræði rennur að óbreyttu út í lok maí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×