Erlent

Biden viðurkennir þjóðarmorð Tyrkja á Armenum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AP/Patrick Semansky

Joe Biden Bandaríkjaforseti varð í gær fyrsti forseti Bandaríkjanna til þess að formlega lýsa fjöldamorðunum á Armenum árið 1915 sem þjóðarmorði. Morðin áttu sér stað í þá deyjandi Ottómanveldinu þar sem nú er Tyrkland.

Málið hefur lengi verið viðkvæmt: Tyrkir hafa viðurkennt að morðin hafi átt sér stað en hafa alltaf neitað að kalla þau þjóðarmorð. Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði í gær að Tyrkland neitaði algerlega að viðurkenna ákvörðun Bandaríkjanna um að kalla morðin þjóðarmorð.

„Við munum ekki leyfa öðrum að kenna okkur sögu okkar,“ skrifaði Cavusoglu á Twitter í gær.

Síðdegis í gær greindi svo tyrkneska utanríkisráðuneytið frá því að það hafi boðað bandaríska sendiherrann í Tyrklandi á sinn fund.

Bandaríkjaforsetar og ríkisstjórnir þeirra hafa aldrei áður sagt opinberlega að morðin hafi verið þjóðarmorð vegna áhyggna um að það myndi mynda spennu í sambandi ríkjanna, en Tyrkland er einnig meðlimur Atlantshafsbandalagsins.

Kaliforníubúar gengu í gegn um borgina í gær til þes að minnast þjóðarmorðs Tyrkja á Armenum.EPA-EFE/ETIENNE LAURENT

Þjóðarmorðin á Armenum 1915 má rekja til stríðs Rússa og Tyrkja um yfirráðasvæði í Kákasusfjöllunum. Löndin höfðu lengi deilt og átt í stríðum allt frá sextándu öld og var þar gjarnan deilt um yfirráð á Balkanskaganum og í Kákasusfjöllum.

Eftir sigur Rússa í stríði ríkjanna árið 1914 héldu Ottómanar því fram að kristnir Armenar hafi svikið land sitt, Ottómanveldið, og gengið til liðs við Rússa. Armenum var útskúfað af heimkynnum sínum og voru þeir fluttir í massavís til sýrlensku eyðimerkurinnar og annarra svæða. Hundruð þúsundir Armena fórust, þeir voru margir myrtir en margir dóu úr sulti eða af veikindum eftir útskúfunina.

Lengi hefur verið deilt um fjölda þeirra Armena sem fórust í aðför Tyrkja að þeim. Armenar hafa lengi sagt að allt að 1,5 milljón hafi farist en Tyrkir halda því fram að aðeins um 300 þúsund hafi farist. Samkvæmt tölum International Association of Genocide Scolars fórust meira en milljón Armena.

Þrátt fyrir að Tyrkir hafi viðurkennt ódæðisverkin sem áttu sér þarna stað hafa þeir alltaf neitað því að kerfisbundin aðför að kristnum Armenum hafi átt sér stað.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×