Innlent

„Til þeirra sem eitra fyrir köttum: Við erum að fylgjast með“

Árni Sæberg skrifar
Fiskur sem fannst á víðavangi í Heiðargerði.
Fiskur sem fannst á víðavangi í Heiðargerði. Facebook/Steinar

Enn fleiri tilvik hafa komið upp þar sem eitrað er fyrir köttum í Heiðargerði. Íbúar í götunni og dýraverndunarsamtökin Dýrfinna hafa tekið málið í eigin hendur.

Í samtali við Vísi fullyrðir sjálboðaliði hjá Dýrfinnu að upp hafi komið fimm tilvik um staðfesta eitrun fyrir köttum á síðustu þremur vikum. Algengast er að frostlögur sé notaður þegar eitrað er fyrir köttum. Þá hefur íbúa Heiðargerðis grunað að eitrað hafi verið fyrir köttum öðru hvoru undanfarin þrjú ár hið minnsta.

Dýrfinna hefur í samráði við íbúa götunnar skipulagt eins konar nágrannavörslu til að sporna við eitranahrinunni. Sjálfboðaliðar ganga um hverfið í tvennum tilgangi, annars vegar til að leita að grunsamlegum mat sem gæti verið eitraður og hins vegar til að hræða mögulegan geranda. 

Sjálboðaliði Dýrfinnu segir erfitt að bera kennsl á einkenni frostlagareitrunnar í köttum. Hún veldur því að kettir verða slappir og missa að lokum getu til að ganga. Þegar einkennin eru orðin greinanleg er oftast ekkert hægt að gera til að bjarga köttunum. Ef þeir eru ekki svæfðir deyja þeir fljótt úr nýrnabilun.

Íbúi í Heiðargerði kom á dögunum auga á mikinn fjölda fiskflaka sem dreift hafði verið á grasbala. Meindýraeiðir sem er Dýrfinnu innan handar telur að frostlögur hafi verið í flökunum. Frostlögur er sætur á bragðið en kettir finna ekki sætt bragð og borða fiskinn því með bestu lyst.

„Við brennum fyrir dýravernd“

Dýrfinna eru sjálfboðaliðasamtök sem stuðla að dýravernd. Helsta verkefni þeirra er að finna týnd gæludýr, líkt og nafnið gefur til kynna. 

Týni fólk gæludýrum er það hvatt til að hafa samband við Dýrfinnu en sjálfboðaliðar samtakanna segjast tilbúnir til að aðstoða við leit að dýrum nótt sem nýtan dag. 

Nánar má lesa um samtökin á vefsíðu þeirra.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×