Innlent

Sjómanni dæmdar 42 milljónir í bætur vegna vinnuslyss á landi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Tryggingafélagið VÍS þarf að greiða sjómanni bætur vegna vinnuslyss sem hann lenti í þegar hann var í frítúr á landi.
Tryggingafélagið VÍS þarf að greiða sjómanni bætur vegna vinnuslyss sem hann lenti í þegar hann var í frítúr á landi. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi tryggingafélagið VÍS til að greiða sjómanni rúmar 42 milljónir króna í bætur í síðustu viku.

Maðurinn slasaðist þegar hann féll um þrjá metra af vinnupalli niður á steinsteypt gólf. Við það hryggbrotnaði maðurinn, tognaði á hálsi og hlaut áverka á öxl. Varanleg örorka hans var metin 40%.

Sjómaðurinn var í frítúr í kjölfar sjómannaverkfalls og réð sig tímabundið sem handlangara. Þegar hann slasaðist var hann að koma fyrir milligólfi í stigagangi húss. Maðurinn féll til jarðar þegar hann hugðist fara niður af vinnupalli en stigi sem hann notaði rann til hliðar á pallinum.

VÍS taldi að orsök slyssins hefði mátt rekja til þess að sjómaðurinn hefði snúið öfugt í stiga á niðurleið en honum hafi mátt vera það ljóst að það væri mjög hættulegt. Þannig hafi ekki verið við vinnuveitanda sjómannsins að sakast.

Héraðsdómur taldi hins vegar að rekja mætti slysið til skorts á fallvörnum en á vinnupallinum voru engin handrið. Það væri ekkert sem rekja mætti slysið til stórkostlegs gáleysi sjómannsins. Honum voru því dæmdar rúmar 42 milljónir króna í bætur vegna líkamstjóns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×