Erlent

Konur sem voru látnar sæta líkamsskoðun á flugvellinum í Doha höfða mál

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konurnar vilja freista þess að tryggja að aðrar konur verði ekki látnar sæta sömu meðferð.
Konurnar vilja freista þess að tryggja að aðrar konur verði ekki látnar sæta sömu meðferð. epa/Mohamed Hossam

Hópur kvenna sem var neyddur til að gangast undir skoðun kvensjúkdómalæknis á flugvellinum í Doha hyggjast höfða mál á hendur yfirvöldum í Katar. Konurnar voru látnar sæta skoðununum eftir að nýfætt yfirgefið barn fannst á einu salerna vallarins.

Konurnar, þeirra á meðal þrettán Ástralir, voru farþegar tíu véla Qatar Airways og áttu bókað flug frá Doha í október í fyrra þegar þær voru neyddar til að sæta líkamsskoðun. 

Að minnsta kosti sjö þeirra munu leita réttar síns, til að senda þau skilaboð til yfirvalda í Katar að framkoma af þessu tagi í garð kvenna sé óásættanleg, segir lögmaður þeirra.

Lögmaðurinn, Damian Sturzaker, segir konurnar enn í dag glíma við afleiðingarnar.

Konurnar munu fara fram á formlega afsökunarbeiðni, bætur og fyrirheit um að þetta gerist ekki aftur. Málið vakti heimsathygli þegar það kom upp og hétu stjórnvöld því að standa framvegis vörð um öryggi farþega.

Forsætisráðherra landsins gaf einnig út afsökunarbeiðni en að sögn Sturzaker hafa konunum ekki verið greiddar bætur né hefur yfirvöldum tekist að sýna fram á að atvikið muni sannarlega ekki endurtaka sig.

Vilja þær vekja athygli á málinu í aðdraganda Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu, sem fram fer í Katar á næsta ári.

Guardian greindi frá.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×