Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Fjölnir 88-77 | Haukakonur stöðvuðu sigurgöngu Fjölnis

Dagur Lárusson skrifar
Haukar unnu flottan sigur gegn Fjölni í kvöld.
Haukar unnu flottan sigur gegn Fjölni í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Haukar fóru með sigur af hólmi gegn Fjölni á Ásvöllum í kvöld er liðin mættust í Subway-deild kvenna en lokatölur voru 88-77.

Fyrir leikinn var Fjölnir í öðru sæti deildarinnar með tuttugu stig á meðan Haukar voru í fjórða sætinu með fjórtán stig.

Haukar byrjuðu að spila virkileg vel strax í byrjun leiks og stjórnuðu hraðanum í leiknum og náðu smátt og smátt að auka forskot sitt. Þegar fyrsti leikhluti var búinn var staðan orðin 20-16.

Í öðrum leikhluta gekk hreinlega ekkert upp hjá Fjölni á meðan Haukar gengu á lagið. Aliyah átti mikið af skotum sem hittu fyrir Fjölni á meðan hvert þriggja stiga skotið fór niður hjá Haukum og þar á meðal þrjú frá Lovísu Björt, staðan 57-40 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum kom Fjölnir aðeins til baka og náðu á tímabili að minnka forskot Hauka í tíu stig en Haukar voru alltaf með svör. Lokatölur leiksins 88-77 og Haukar því komnir með sextán stig.

Af hverju unnu Haukar?

Það var ljóst strax frá því í byrjun leiks að Haukar voru með yfirhöndina. Baráttan og spilið hjá liðinu var til fyrirmyndar á meðan ákveðið kæruleysi einkenndi leik Fjölnis á tímum.

Hverjar stóðu upp úr?

Það voru svo margir leikmenn hjá Haukum að spila vel en þá allra helst Keira Robinson, hún átti algjörlega frábæran leik og vann baráttuna við Aliyah.

Hvað fór illa?

Halldór Karl, þjálfari Fjölnis, talaði um það eftir leik að ákveðið kæruleysi hafi einkennt spilamennsku síns liðs í kvöld og þá sérstaklega í öðrum leikhluta þegar Haukar komust í tuttugu stiga forystu.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Fjölnis er gegn Njarðvík þann 13.febrúar á meðan næsti leikur Hauka er 9.febrúar gegn Grindavík.

Bjarni Magnússon: Mér finnst spilamennska okkar verða betri og betri með hverjum leiknum

Bjarni Magnússon var sáttur með sitt lið í kvöld.Vísir/Bára

„Ég er auðvitað alltaf sáttur þegar við vinnum en við erum auðvitað með mikinn metnað og erum því alltaf með það hugfast að við viljum breyta og bæta í hverjum einasta leik,” byrjaði Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, að segja eftir leik.

„Spilamennska liðsins var svolítið kaflaskipt í kvöld en hvernig við komum inn í leikinn var auðvitað bara frábært, bæði sóknarlega og varnarlega,” hélt Bjarni áfram.

„Við vorum með öruggu forystu í hálfleik og það getur oft verið vandasamt að vera með slíka forystu í hálfleik. Við náðum síðan að halda þeim í skefjum í þriðja og fjórða leikhluta og því yfir heildina er ég bara nokkuð sáttur.”

Bjarni var duglegur að skipta leikmönnum inn og út í leiknum og því voru allir leikmenn liðsins nema þrír með stig í kvöld. Bjarni telur að það sé gríðarlega mikilvægt að vera með stóran og breiðan hóp sem hann getur treyst á.

„Já það er auðvitað gríðarlega mikilvægt, það sást í kvöld hversu góða breidd við erum með og ég var líka með þrjár stelpur á bekknum sem hefði getað komið inn og gert vel en þær munu þá spila meira í næstu leikjum.”

„Mér finnst spilamennska okkar verða betri og betri með hverjum leiknum sem líður og það er virkilega jákvætt,” endaði Bjarni á að segja.

Halldór Karl: Kæruleysið var algjört

Halldór Karl Þórsson segir að leikmenn liðsins hafi ekki lagt sig nógu mikið fram í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var virkilega slappur fyrri hálfleikur og líklega einhver versti annar leikhluti sem ég hef nokkurn tímann séð síðan ég tók við liðinu fyrir fjórum árum,” byrjaði Halldór Karl, þjálfari Fjölnis, að segja eftir leik.

„Við getum auðvitað notað fullt af afsökunum en vandamálið var einfaldlega að við mættum ekki í leikinn. Ég veit ekki hvort að við höfum haldið að við værum betri en við erum eða eitthvað álíka. En þú getur ekki mætt hingað á Ásvelli með svona hugarfar,” hélt Halldór áfram.

Halldór vildi meina að ákveðið kæruleysi hafi einkennt spilamennsku síns liðs.

„Já ég vil meina að það hafi verið frekar augljóst. Kæruleysið var algjört og við vorum ekki að leggja okkur almennilega fram. Við auðvitað náðum að klóra rétt svo í bakkan hérna undir lokin en þetta var samt sem áður alls ekki nægilega gott.

Fyrir leikinn var Fjölnisliðið búið að vera í miklum vandræðum með covid en nokkrir leikmenn liðsins hafa fengið veiruna síðustu vikur líkt og Sanja og Iva.

„Iva tók eina æfingu með okkur fyrir þennan leik, Sanja er nýbúin að ná sér af veirunni og er ekki orðin leikfær þar sem hún er að eiga við eftirköst. Aliyah er sjálf búin að vera veik, þó ekki með covid, og hún þurfti að spila nánast allan leikinn sem er auðvitað ekki sniðugt. Ég hlakka bara til þess að við getum öll fengið venjulegt líf aftur,” endaði Halldór á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira