Körfubolti

Sjáðu körfu­bolta­krafta­verkið í For­seta­höllinni í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eysteinn Bjarni Ævarsson er hér búinn að ná þriggja stiga skotinu rétt áður en leiktíminn rann út.
Eysteinn Bjarni Ævarsson er hér búinn að ná þriggja stiga skotinu rétt áður en leiktíminn rann út. S2 Sport

Álftanesliðið kom sér á ótrúlegan hátt í framlengingu í leik á móti Haukum í 1. deild karla í körfubolta í gær. Haukunum tókst samt á endanum að vinna leikinn eftir tvær framlengingar.

Álftnesingar voru fimm stigum undir í leiknum þegar aðeins þrjár sekúndur voru eftir af leiknum en tókst að framkalla sannkallað körfuboltakraftaverk í Forsetahöllinni.

Senurnar undir lok venjulegs leiktíma fara í sögubækurnar enda héldu allir að Haukar væru búnir að vinna leikinn þegar þeir komust í 78-73 rétt rúmum fjórum sekúndum fyrir leikslok.

Haukar brutu aftur á móti á Cedrick Taylor Bowen í þriggja stiga skoti þegar 1,5 sekúnda var eftir. Bowen hitti úr tveimur fyrstu skotum sínum en klikkaði á því þriðja. Álftnesingar náðu að slá sóknarfrákastið út til Eysteins Bjarna Ævarssonar sem setti í framhaldinu niður þriggja stiga skot, jafnaði leikinn og tryggði Álftanes framlengingu.

Klippa: Fimm stig á innan við tveimur sekúndum

Bowen gat tryggt Álftanesi sigur í fyrstu framlengingunni en klikkaði þá á þriggja stiga skoti. Álftanes fékk lokaskotið í annarri framlengingu en klikkuðu aftur á þriggja stiga skoti.

Haukar unnu á endanum mikilvægan 108-107 sigur á Álftanesi í gærkvöldi í toppslag í 1. deild karla og eru þar með tveimur stigum á eftir toppliði Hattar auk þess að eiga tvo leiki inni á Austfirðinga.

Þetta var eitt síðasta tækifærið hjá Álftnesingum til að blanda sér í baráttuna um deildarmeistaratitilinn sem gefur beint sæti í Subway-deildinni en liðin í öðru til fimmta sæti keppa um hitt sæti í úrslitakeppninni í vor.

Það má sjá þennan ótrúlega lokakafla í venjulegum leiktíma hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×