Körfubolti

Fjölnir getur unnið fyrsta stóra titilinn í boltaíþrótt í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjölniskonur hafa unnið marga sæta sigra í vetur. Með einum í viðbót verða þær deildarmeistarar í Subway-deild kvenna.
Fjölniskonur hafa unnið marga sæta sigra í vetur. Með einum í viðbót verða þær deildarmeistarar í Subway-deild kvenna. Bára Dröfn Kristinsdóttir

Kvennalið Fjölnis í körfubolta getur brotið blað í sögu félagsins ef það vinnur Val í hreinum úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn í Subway-deild kvenna í kvöld.

Fjölnir er með tveggja stiga forskot á Val á toppi Subway-deildarinnar fyrir lokaumferðina sem fer fram í kvöld. Fjölniskonur og Valskonur mætast í Dalhúsum og svo lengi sem Grafarvogsbúar tapa ekki með meira en 25 stigum verða þeir deildarmeistarar.

Ef það gerist verður það ekki bara fyrsti stóri titilinn sem körfuboltalið Fjölnis vinnur heldur einnig fyrsti stóri titill Grafarvogsfélagsins í boltaíþrótt. Fjölnir var stofnaður 1988 og er því 34 ára á þessu ári.

Karlalið Fjölnis í fótbolta og körfubolta hafa bæði í tvígang komist í bikarúrslit en allir fjórir úrslitaleikirnir töpuðust. Þá hefur Fjölnir aldrei verið nálægt því að vinna Íslandsmeistaratitil í boltaíþrótt.

Aliyah Mazyck er stigahæsti leikmaður Subway-deildarinnar á tímabilinu með 27,8 stig að meðaltali í leik.vísir/vilhelm

Fjölniskonur geta skrifað nýjan kafla í sögu félagsins með sigri á Íslandsmeisturum Valskvenna í kvöld. Fjölnir er á öðru ári í Subway-deildinni en styrkti sig vel fyrir tímabilið og hefur verið í efri hlutanum í allan vetur.

Fjölnir, Valur, Haukar og Njarðvík eru örugg með sæti í úrslitakeppninni sem hefst á mánudaginn. Eina spurningin er í hvaða sætum liðin enda.

Leikur Fjölnis og Vals hefst klukkan 19:15 og verður sýndur á Stöð 2 Sport. Eftir leikinn verður svo farið yfir lokaumferðina í Subway Körfuboltakvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×