Fótbolti

„Ekki hræddar“ við að mæta ensku ljónynjunum

Sindri Sverrisson skrifar
Aitana Bonmati er klár í að takast á við afar sannfærandi lið Englands.
Aitana Bonmati er klár í að takast á við afar sannfærandi lið Englands. Getty/Federico Maranesi

Aitana Bonmati, miðjumaður spænska landsliðsins, segist ekkert hafa að óttast fyrir leikinn við England í kvöld í 8-liða úrslitum Evrópumótsins í fótbolta.

Englendingar hafa þegar sett markamet á mótinu og hreinlega farið á kostum, til að mynda með 8-0 sigri á tvöföldum Evrópumeisturum Noregs. England vann alla þrjá leiki sína með sannfærandi hætti í riðlakeppninni og hefur enn ekki tapað leik undir stjórn þjálfarans Sarinu Wiegman.

Spænska liðið, sem tapaði reyndar 2-0 gegn Þýskalandi í riðlakeppninni, er hins vegar einnig ógnarsterkt og Bonmati segir það bara spennandi að mæta Englendingum á þeirra heimavelli.

„Þetta gírar okkur bara upp. Ég er ekki hrædd. Ég held að liðsfélagar mínir séu ekki hræddar heldur,“ sagði Bonmati við BBC.

„Við vitum að þær eru með gott lið og hafa átt margar góðar frammistöður. Við erum búnar að sjá leikina þeirra þrjá í riðlakeppninni og þær gerðu afar vel. Við teljum okkur samt geta unnið þær en við þurfum að bæta okkar leikstíl og vera betri en á laugardaginn,“ sagði Bonmati en Spánn vann þá 1-0 sigur gegn Danmörku og kom sér þannig upp úr „dauðariðlinum“.

„Við höfum aldrei komist í undanúrslit. Það mun gíra okkur mjög vel upp að spila gegn Englandi á þeirra heimavelli með þeirra áhorfendur,“ sagði Bonmati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×