Sport

„Þetta er bara ansi gott þótt ég segi sjálfur frá“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson ætlar sér stóra hluti á heimsleikunum í ár sem undanfarin ár.
Björgvin Karl Guðmundsson ætlar sér stóra hluti á heimsleikunum í ár sem undanfarin ár. Instagram/@bk_gudmundsson

Björgvin Karl Guðmundsson er stærsta vonarstjarna Íslands á komandi heimsleikum í CrossFit nú þegar Anníe Mist Þórisdóttir er búin að skipta yfir í liðakeppnina og þær Katrín Tanja Davíðsdóttir og Sara Sigmundsdóttir mistókst að tryggja sér farseðil á leikanna.

Þessi fjögur hafa öll verið á verðlaunapallinum undanfarin áratug en nú er það bara Björgvin Karl sem er með í ár.

Auðvitað eru upprennandi íslenskar stjörnur með í ár eins og þær Þuríður Erla Helgadóttir og Sólveig Sigurðardóttir. Þuríður náði níunda sætinu 2019 og varð þrettánda í fyrra. Sólveig er að keppa í fyrsta sinn í einstaklingskeppninni á leikunum en var tvisvar með í liðakeppninni.

Það búast fáir við því að þær Þuríður Erla og Sólveig, þó mjög góðar séu, keppi um verðlaunasæti á heimsleikunum en þar er aftur á móti stefnan að vanda hjá BKG.

Anníe, Katrín Tanja og Sara hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarin ár en hinn stöðugi og stórbrotni Björgvin Karl hefur meira verið í því að láta bara verkin tala.

Björgvin ætlar aftur á móti að leyfa aðdáendum sínum að fylgjast meira með sér á þessum heimsleikum því hann leyfði Snorra Björnssyni að fylgjast með tímabilinu sínu og afraksturinn má finna í þáttarröð á Youtube.

Fyrsti þátturinn er nú kominn í loftið og Björgvin Karl auglýsti hann á Instagram síðu sinni.

„Góðvinur minn Snorri Björnsson hefur fylgst nánast með hverri hreyfingu hjá mér á þessu tímabili til að setja saman heimildarmyndina um ferð mína á heimsleikana 2022,“ skrifaði Björgvin Karl.

„Fyrsti þátturinn var að detta inn á Youtube. Kíkið á hann. Þetta er bara ansi gott þótt ég segi sjálfur frá,“ skrifaði Björgvin.

Í þessum fyrsta þætti er fylgst sérstaklega með Björgvini í undanúrslitamótinu í Amsterdam þar sem hann tryggði sér farseðilinn á heimsleikana. Björgvin gerði það með því að ná öðru sæti á CrossFit Lowlands Throwdown mótinu.

Hér fyrir neðan má sjá fyrsta þáttinn af leið Björgvins Karls Guðmundssonar á heimsleikana í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×