Fótbolti

Mbappé skoraði fljótasta mark í sögu frönsku úrvalsdeildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappe var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn er PSG vann stórsigur gegn Lille í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Kylian Mbappe var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn er PSG vann stórsigur gegn Lille í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Catherine Steenkeste/Getty Images

Kylian Mbappé átti sannkallaðan stórleik er Paris Saint-Germain vann risasigur gegn Lille í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld, 1-7. Mbappé skoraði þrennu fyrir frönsku meistarana, en fyrsta markið skoraði hann eftir aðeins átta sekúndur.

Parísarliðið hóf leikinn á vel útfærðu upphafssparki þar sem boltinn barst aftur á Lionel Messi sem lyfti knettinum yfir vörn heimamanna. Þar var mættur eldsnöggur Kylian Mbappé sem lyfti boltanum yfir Leo Jardim í marki Lille og þaðan í netið.

Frábær byrjun á leiknum fyrir PSG og aðeins átta sekúndur á klukkunni þegar boltinn fór yfir línuna. Það er jöfnun á metinu yfir fljótasta mark frönsku úrvalsdeildarinnar, en Michel Rio skoraði einnig eftir átta sekúndur fyrir Caen gegn Cannes árið 1992.

Markið kom heimamönnum svo sannarlega í opna skjöldu. Gestirnir frá París gengu á lagið og skoruðu sex í viðbót og tryggðu sér stigin þrjú með afar sannfærandi sigri, 1-7. PSG trónir á toppi deildarinnar þegar þrem umferðum er lokið með fullt hús stiga þar sem liðið hefur skorað hvorki meira né minna en 17 mörk í fyrstu þrem leikjunum.


Tengdar fréttir

Mbappé skoraði þrennu í risasigri PSG

Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain lentu ekki í neinum vandræðum er liðið heimsótti Lille í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Liðið vann afar öruggan 1-7 sigur þar sem Kylian Mbappé skoraði þrennu fyrir gestina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×