Innlent

Arnar Már skipaður forstjóri Byggðastofnunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar.
Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar. Byggðastofnun

Innviðaráðherra skipaði Arnar Má Elíasson forstjóra Byggðastofnunar til fimm ára. Arnar Már hefur verið starfandi forstjóri stofnunarinnar frá því í febrúar og staðgengill forstjóra frá árinu 2016.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, er sagður hafa valið Arnar Má að fengnum tillögum frá ráðgefandi hæfnisnefnd og stjórn Byggðastofnunar í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Skipanin í embættið tók gildi föstudaginn 16. september.

Arnar Már lauk B.A.-prófi í hagfræði frá Winthrop University í USA og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað við fjármál og lánastarfsemi frá árinu 2004 hjá SPRON, Íslandsbanka og síðar Byggðastofnun.

Frá 1. febrúar á þessu ári hefur Arnar Már verið starfandi forstjóri Byggðastofnunar en var áður forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar og staðgengill forstjóra frá árinu 2016.

Byggðastofnun er staðsett á Sauðárkróki. Forstjóri Byggðastofnunar ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar, þjónustu og árangri. Hlutverk Byggðastofnunar er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×