Innlent

Þétting byggðar ein helsta or­sök tíðra raf­magns­bilana

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Veitur segjast halda úti miklu eftirliti með kerfinu, sérstaklega þeim hluta sem er orðinn nokkuð gamall. Ekki sé þó hægt að sjá bilanir fyrir sem orsakast af byggingaframkvæmdum í nágrenni kerfisins nema byggingaraðilar láti vita að þeir hafi grafið hættulega nálægt línunum.
Veitur segjast halda úti miklu eftirliti með kerfinu, sérstaklega þeim hluta sem er orðinn nokkuð gamall. Ekki sé þó hægt að sjá bilanir fyrir sem orsakast af byggingaframkvæmdum í nágrenni kerfisins nema byggingaraðilar láti vita að þeir hafi grafið hættulega nálægt línunum. vísir/vilhelm

Bygginga­fram­kvæmdir sem fylgja þéttingu byggðar eru helsta or­sök ó­venju tíðra raf­magns­bilana sem hafa hrjáð íbúa mið­bæjar og Vestur­bæjar upp á síð­kastið. Veitinga­maður segist hafa tapað gríðar­legum fjár­munum vegna raf­magns­leysisins í gær.

Raf­magnið datt út á stórum hluta mið­bæjarins, Vestur­bæjar og Granda síð­degis í gær. Bilunin hafði miklar af­leiðingar fyrir rekstrar­aðila á svæðinu.

„Þetta hafði bara mjög mikil á­hrif. Við töpuðum mikilli sölu,“ segir Ólafur Örn Ólafs­son, einn af eig­endum veitinga­staðarins Brút á Póst­hús­stræti.

Ólafur Örn Ólafsson er einn af eigendur veitingastaðarins Brút.vísir/vilhelm

Til­kynning barst frá Veitum seinni partinn í gær þar sem fram kom að raf­magns­laust yrði á öllu svæðinu fram til mið­nættis. Ólafur tók þá á­kvörðun um að loka staðnum.

„Ég kemst svo að því að þetta er ekki nema hálfur bærinn, þannig að það er fullt af fólki í bænum en svo kemur raf­magnið á sem er náttúru­lega bara frá­bært en það tekur okkur alveg góðan klukku­tíma að koma okkur aftur af stað,“ segir Ólafur Örn.

Þetta hafi haft mikil á­hrif á reksturinn.

„Ég var búinn að hringja í alla gesti sem áttu pantað og segja þeim að við værum með lokað þannig að við tókum ein­hverja nokkra inn af götunni. Þau voru bara mjög á­nægð með þetta og þetta var frá­bært en miðað við föstu­dags­kvöld vorum við að taka bara ein­hverjar ör­fáar hræður,“ segir Ólafur Örn.

Byggingaframkvæmdir vandamálið

Þetta er í þriðja skiptið á innan við mánuði sem raf­magns­laust verður á ein­hverjum hluta sama svæðis.

„Í raf­magninu sér­stak­lega þá er þetta tals­vert núna á skömmum tíma. En það sem við teljum al­mennt að sé að valda þessum truflunum hjá okkur er þessi jarð­vinna ná­lægt strengjunum okkar þar sem er verið að grafa í námunda við þá,“ segir Jóhannes Þor­leiks­son, for­stöðu­maður Raf­veitu hjá Veitum.

„Þetta er sko bæði náttúru­lega þétting byggðar og svo eru fram­kvæmdir um alla borg. Og við erum al­mennt í góðri sam­vinnu við Reykja­víkur­borg og verk­taka eins og við getum en við höfum ekki fulla yfir­sýn yfir allt sem er í gangi,“ segir Jóhannes.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×