Fótbolti

FIFA sendi bréf á allar þátttökuþjóðir á HM: „Einbeitið ykkur að fótboltanum!“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Plís, nenniði að einbeita ykkur að fótboltanum!
Plís, nenniði að einbeita ykkur að fótboltanum! getty/Stephen McCarthy

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur sent bréf á öll 32 þátttökuliðin á HM í Katar þar sem þau eru beðin að einbeita sér að fótboltanum en ekki siðferðislegum álitamálum.

Sky Sports hefur séð bréfið sem er undirritað af Gianni Infantino, forseta FIFA, og Fatma Samoura, framkvæmdastjóra sambandsins. Í bréfinu hvetja þau þátttökuþjóðirnar á HM til að einbeita sér að fótboltanum og „forðast að draga hann inn í hverja einustu hugmyndafræðilegu eða pólítísku deilu sem fyrirfinnst.“

Rúmar tvær vikur eru þar til HM hefst. Umræðan fyrir mótið hefur að miklu leyti snúist um mannréttindabrot í Katar og ömurlegan og stórhættulegan aðbúnað verkafólks sem hefur fallið í valinn í þúsundatali við byggingu leikvanga fyrir HM.

En forráðamenn FIFA vilja helst ekki að þessi mál séu í umræðunni skömmu áður en flautað verður til leiks á 22. heimsmeistaramótinu. „Vinsamlegast, einbeitum okkur að fótboltanum!“ segir orðrétt í bréfinu. Þar segir einnig: „Allir eru velkomnir á mótið, óháð uppruna, bakgrunni, trú, kyni, kynhneigð eða þjóðerni.“ Þetta rímar þó ekki alveg við stefnu stjórnvalda í Katar.

Fyrstu leikirnir á HM fara fram 20. nóvember og mótinu lýkur svo með úrslitaleik 18. desember, á þjóðhátíðardegi Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×