Fótbolti

Pereira hetja PSG í fjar­veru Messi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hetjur PSG í dag.
Hetjur PSG í dag. Antonio Borga/Getty Images

Lionel Messi er farinn í frí til að vera í sem bestu formi á heimsmeistaramótinu sem hefst í Katar eftir aðeins tvær vikur. Lið hans París Saint-Germian er hins vegar enn að spila og stóð í ströngu gegn Lorient í dag. Unnu meistararnir nauman 2-1 útisigur þökk sé sigurmarki Danilo Pereira þegar skammt var til leiksloka.

Þó Messi hafi hvergi verið sjáanlegur í dag þá voru Kylian Mbappé, Neymar, Marco Veratti og fleiri í byrjunarliði PSG. Það var ljóst að Parísarliðið þyrfti að gefa allt í leikinn en Lorient hefur komið á óvart í upphafi tímabils.

Neymar kom sínum mönnum yfir á níundi mínútu leiksins en það var eina mark fyrri hálfleiks. Í þeim síðari jafnaði Terem Moffi metin fyrir heimamenn og var staðan jöfn allt þangað til á 81. mínútu leiksins. Pereira skallaði þá hornspyrnu Neymar í netið og tryggði Frakklandsmeisturum PSG dýrmætan 2-1 sigur.

PSG er komið með fimm stiga forystu á Lens á toppi deildarinnar, meistararnir með 38 stig á meðan Lens er með 33 stig. Lorient er í 4. sæti með 27 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×