Innlent

Starfs­menn Vega­gerðarinnar bjart­sýnir

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Töluverð umferð hefur verið á Hellisheiði í morgun.
Töluverð umferð hefur verið á Hellisheiði í morgun. Vísir/Vilhelm

Þungfært er á nokkrum leiðum á Suðurlandi vegna snjókomu. Töluverð snjóþekja er á Hellisheiði og í Þrengslum. Starfsmenn Vegagerðarinnar eru hins vegar bjartsýnir á að hægt verði að halda heiðinni opinni í dag, þrátt fyrir mikla umferð.

Gular viðvaranir eru í gildi á Suðurlandi og Suðausturlandi í dag vegna hvassviðris og mikillar ofankomu. Fólk hefur verið hvatt til að fylgjast vel með færð á vegum, sér í lagi á Suðurlandi. Sverrir Unnsteinsson hjá Vegagerðinni segir að vel hafi gengið.

„Þetta lítur bara þokkalega út. Það snjóar en við erum með góða þjónustu á Heiðinni núna og erum að halda við mokstrinum. Þannig að það verður aldrei það mikill snjór, miðað við spá, og umferðin hefur gengið það vel í morgun,“ segir Sverrir.

Þónokkur umferð í dag

Vegagerðin er með hefðbundna helgarþjónustu á vegum og standa margir starfsmenn því vaktina.

„Það er búið að vera þónokkur umferð í dag. Þessi úrkoma í kringum hádegið á að færast austur yfir og þá á úrkoman á Hellisheiðinni að minnka. Við vorum undirbúin og þau voru í startholunum að byrja að hreinsa um leið og þyrfti.“ 

Aðspurður segir Sverrir mikilvægt að vera á vel útbúnum bílum, sérstaklega á útvegum þar sem þæfingur er. Þungfært sé á nokkrum leiðum á Suðurlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×