Fótbolti

Van Dijk líklega frá í nokkrar vikur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Van Dijk var tekinn af velli í tapi Liverpool gegn Brentford.
Van Dijk var tekinn af velli í tapi Liverpool gegn Brentford. Vísir/Getty

Meiðsli sem Virgil Van Dijk varð fyrir í leik Liverpool og Brentford virðast alvarlegri en talið var í fyrstu. Tölfræðin sýnir að Liverpool sækir mun fleiri stig með Van Dijk en án hans.

Van Dijk var tekinn af velli í hálfleik þegar Liverpool tapaði 3-1 fyrir Brentford á mánudagskvöldið og eftir leik sagði Jurgen Klopp þjálfari liðsins að Van Dijk hefði stífnað upp aftan í læri en að meiðslin væru líklega ekki alvarleg.

Nú virðist hins vegar sem annað hafi komið á daginn. Fjölmiðlar ytra greina frá því að Van Dijk gæti verið frá keppni í nokkrar vikur sem yrði áfall fyrir liðið frá Bítlaborginni.

Van Dijk er af mörkum talinn einn af betri varnarmönnum í heimi en hann hefur þó verið mistækur hingað til á tímabilinu og verið töluvert frá sínu besta.

„Ég veit að ég hefði getað gert betur í upphafi tímabilsins, ég er ekkert barnalegur hvað það varðar. Ég veit alveg hvenær ég geri mistök,“ sagði Van Dijk í viðtali við The Athletic.

Varnarleikur Liverpool hefur alls ekki verið nógu góður á tímabilinu en í þeim leikjum sem Van Dijk hefur spilað þá hefur 71 mínúta liðið á milli þeirra marka sem liðið hefur fengið á sig á tímabilinu samanborið við 146 mínútur í fyrra. 

Síðan Van Dijk kom til Liverpool frá Southampton árið 2019 þá er vinningshlutfall liðsins 72% með Hollendinginn í liðinu en 57% án hans. Það er því ljóst að Jurgen Klopp þarf að setjast niður og finna einhverjar lausnir fyrir framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×