Fótbolti

Nottingham Forest úr fallsæti eftir góðan útisigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Taiwo Awoniyi skorar hér sigurmarkið gegn Southampton í kvöld.
Taiwo Awoniyi skorar hér sigurmarkið gegn Southampton í kvöld. Vísir/Getty

Nottingham Forest lyfti sér úr fallsæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir góðan útisigur á Southampton. Leeds gerði jafntefli við West Ham á heimavelli og þá var niðurstaðan einnig jafntefli í leik Aston Villa og Úlfanna.

Nottingham Forest hefur átt frekar erfitt uppdráttar í ensku úrvalsdeildinni í vetur og helstu fréttirnar um nýliðana hafa verið um allan þann fjölda nýrra leikmanna sem liðið keypti fyrir tímabilið.

Þeir fögnuðu þó góðum sigri í kvöld þegar þeir sóttu Southampton heim á suðurströndina. Taiwo Awoniyi skoraði eina mark leiksins og Nottingham Forest því komið upp úr fallsæti.

Í Leeds tóku heimamen á móti West Ham sem gengið hefur bölvanlega að undanförnu. Wilfried Gnonto kom Leeds yfir á 28.mínútu en West Ham svaraði með tveimur mörkum. Lucas Paqueta jafnaði úr vítaspyrnu rétt fyrir leikhlé og á fyrstu mínútu síðari hálfleiks kom Gianluca Scamacca West Ham í 2-1.

Jesse Marsch og David Moyes í átökum á hliðarlínunni í kvöld.Vísir/Getty

Á 70.mínútu jafnaði Rodrigo Moreno hins vegar metin fyrir Leeds og liðin urðu að sættast á jafnan hlut.

Í Birmingham var síðan nágrannaslagur Aston Villa og Úlfanna. Wolves náði forystunni strax eftir tólf mínútur þegar Daniel Podence kom liðinu yfir með góðu marki eftir sendingu Joao Moutinho.

Varamaðurinn Danny Ings jafnaði fyrir Villa þegar tólf mínútur voru eftir en lengra komust heimamenn ekki og lokatölur því 1-1. Wolves er í fallsæti deildarinnar en Aston Villa í 11.sætinu en liðinu hefur gengið ágætlega eftir að Unai Emeray tók við sem þjálfari eftir að Steven Gerrard var sagt upp störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×