Sport

Djokovic tók metið af Steffi Graf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic hefur nú verið oftar á toppi heimslistans en nokkur annar.
Novak Djokovic hefur nú verið oftar á toppi heimslistans en nokkur annar. AP/Darko Vojinovic

Serbinn Novak Djokovic er efstur á heimslistanum í tennis í þessari viku og setti um leið nýtt met.

Þetta er 378. vikan sem Djokovic situr í toppsæti heimslista Alþjóða tennissambandsins og þar með tekur hann metið af tenniskonunni Steffi Graf.

Graf heldur auðvitað áfram metinu hjá konunum en hún átti einnig metið þegar karlarnir voru taldir með.

Graf var í efsta sæti heimslistans í 377 vikur á níunda og tíunda áratugnum en hún setti tennisskóna á hilluna árið 1999.

Djokovic byrjaði þetta ár á því að vinna fyrsta risamót ársins sem var Opna ástralska mótið í janúar. Hann var að vinna þetta mót í tíunda skiptið og enn fremur sinn 22. risatitil á ferlinum. Djokovic hefur nú unnið jafnmarga risatitla og Rafael Nadal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×