Sport

Sara kom heim með gull og pening frá Furstadæmunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir fagnar sigri á mótinu í Sameinuðu Furstadæmunum um helgina.
Sara Sigmundsdóttir fagnar sigri á mótinu í Sameinuðu Furstadæmunum um helgina. Instagram/@sarasigmunds

Sara Sigmundsdóttir komst aftur á sigurbraut eftir magnaða frammistöðu í eyðimörkinni um helgina.

Sara hefur verið að koma til baka eftir tvö erfið ár þar sem meiðsli gerðu henni mjög erfitt fyrir. Hún sýndi hins vegar hversu mögnuð hún þegar hún tók þátt í UAE Storm Games CrossFit mótinu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Sara vann keppnina með eins sannfærandi hætti og mögulegt er. Hún vann allar átta greinarnar sem hún keppti í.

Instagram

Sara fékk því átta stig og endaði sextán sigum á undan Elenu Carratala Sanahuja frá Spáni.

Sara fékk bæði gull um hálsinn og glæsilegan bikar fyrir sigurinn en hún fékk líka meira.

Alls voru 30 þúsund SAF-díramar í verðlaunafé og að auki þúsund SAF-díramar fyrir sigur í hverri grein.

Sara fékk því alls 38 þúsund dírama í verðlaunafé sem gera rúmlega 1,4 milljónir íslenskra króna.

Ísland átti annan keppenda á mótinu en Elín Hallgrímsdóttir endaði í fimmta sætinu. Elín náði best öðru sætinu í einni grein.

Þetta er gott veganesti fyrir Söru inn í fjórðungsúrslitin í undankeppni heimsleikanna þar sem hún mun eins og annað CrossFit fólk í fremstu röð berjast um sæti í undanúrslitamótunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×