Fótbolti

Willum lék gegn Ajax og Jón Dagur skoraði gegn toppliðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Willum Þór fer hér framhjá Owen Wijndal í leiknum gegn Ajax í dag.
Willum Þór fer hér framhjá Owen Wijndal í leiknum gegn Ajax í dag. Vísir/Getty

Willum Þór Willumsson og Jón Dagur Þorsteinsson voru í eldlínunni með sínum liðum í hollensku- og belgísku deildinni í knattspyrnu í dag.

Willum Þór Willumsson var í byrjunarliði Go Ahead Eagles sem mætti stórliði Ajax á heimavelli í dag. Willum hefur verið að leika vel með sínu liði að undanförnu en Go Ahead Eagles siglir nokkuð lygnan sjó í deildinni á meðan Ajax er í öðru sæti deildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Feyenoord.

Leikurinn í dag var nokkuð jafn þó svo að Ajax hafi verið leiðandi aðilinn. Gestunum tókst að skora í fyrri hálfleik en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Hvorugu liðinu tókst að skora í leiknum og honum lauk með markalausu jafntefli.

Willum Þór og félagar sitja í ellefta sæti deildarinnar, í nokkuð þægilegri fjarlægð frá fallbaráttunni.

Jón Dagur í leik gegn Anderlecht.Vísir/Getty

Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði OH Leuven sem var í heimsókn hjá Genk en heimaliðið situr á toppi deildarinnar.

Bryan Heynen kom Genk yfir á 23. mínútu leiksins og staðan í hálfleik var 1-0. Í upphafi síðari hálfleiks leitaði dómarinn síðan eftir aðstoð hjá myndbandsdómurum eftir atvik í teig Genk og niðurstaðan var vítaspyrna til gestanna.

Jón Dagur steig á vítapunktinn og gerði engin mistök, hann jafnaði metin í 1-1 og gestirnir í fínum málum.

Á 87. mínútu leiksins skoraði hins vear Mike Ndayishimiye sigurmarkið í leiknum fyrir Genk og tryggði liðinu mikilvæg stig í toppbaráttunni. Genk er með fjögurra stiga forskot á Union Saint-Gilloise á toppi belgísku deildarinnar en OH Leuven er í ellefta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×