Viðskipti innlent

Tjörvi tekur við af Hilmari

Máni Snær Þorláksson skrifar
Tjörvi Þórsson er nýr framkvæmdastjóri Sagafilm.
Tjörvi Þórsson er nýr framkvæmdastjóri Sagafilm. Aðsend

Tjörvi Þórsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Sagafilm og hefur hann þegar hafið störf. Undanfarin ár hefur hann verið kvikmyndaframleiðandi í Netop Films og þar á undan var hann framleiðslustjóri í Kvikmyndamiðstöð um margra ára skeið. Hann tekur við starfinu af Hilmari Sigurðssyni sem lét af störfum um mánaðarmótin.

Í tilkynningu frá Sagafilm kemur fram að Tjörvi sé með mikla reynslu í kvikmyndaframleiðslu en sem fyrr segir hefur hann á síðustu árum unnið í Netop Films. Síðast vann hann að framleiðslu kvikmyndarinnar Northern Comfort sem frumsýnd verður á Íslandi í haust. Hann er með MSc próf í alþjóðaviðskiptum og MA í alþjóðasamskiptum.

Ragnar Agnarsson, stjórnarformaður Sagafilm, segir í tilkynningunni að spennandi tímar séu framundan hjá Sagafilm og að það sé mikill akkur að fá hann til liðs við fyrirtækið. Þá segir Tjörvi að það sé spennandi að takast á við stjórnun á sterku fyrirtæki með starfsemi og viðskipti víða um heim.

Hilmar Sigurðsson lét af störfum sem framkvæmdastjóri Sagafilm um mánaðarmótin.IMDB

Í tilkynningunni kemur einnig fram að breytingar hafi verið gerðar á hluthafahópi Sagafilm. Hlutafélag Hilmars og Gunnars Karlssonar fer úr hluthafahópi Sagafilm:

„HilGun, hverfur úr hlutahafahópi Sagafilm í kjölfarið og hafa eigendur þess keypt aftur allt hlutafé í GunHil ehf. sem var i eigu Sagafilm og munu Gunnar Karlsson og Hilmar Sigurðsson hverfa á ný til starfa í GunHil. Eftir að breytingarnar hafa komið fram að fullu, munu KPR ehf. og Beta Nordic Studios vera hlutahafar og eigendur Sagafilm.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×