Innlent

Fjórir játa að hafa stolið tonni af bjór á Akur­eyri

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mennirnir stálu bjórnum á Akureyri í byrjun júlí árið 2019.
Mennirnir stálu bjórnum á Akureyri í byrjun júlí árið 2019. Vísir/Vilhelm

Fjórir karlmenn hafa játað að hafa stolið 1.890 dósum af 500 millilítra bjór úr Fjölsmiðjunni á Akureyri árið 2019. Tveir mannanna voru dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisvistar en tveir sluppu án refsingar. 

Mennirnir fjórir eru misgamlir, sá yngsti er 26 ára gamall og elsti 62 ára gamall. Einungis einn þeirra, sá elsti, var með hreina sakaskrá áður en dómur í málinu féll. 

Atvikið átti sér stað þann 2. júlí árið 2019. Brutust mennirnir þá inn í húsnæði Fjölsmiðjunnar á Akureyri sem er vinnusetur fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 24 ára sem stendur á krossgötum í lífinu. 

Var þar meðal annars innpökkun fyrir Víking brugghús og því voru staðsettar í húsnæðinu 1.890 bjórdósir af hálfs lítra bjór. Engar öryggismyndavélar voru í húsinu á þessum tíma. 

Þrír mannanna höfðu áður verið sakfelldir fyrir brot á hegningarlögum, tveir þeirra meðal annars fyrir líkamsárásir.

Mennirnir fjórir játuðu allir aðild sína að málinu fyrir dómi og kröfðust vægustu refsingar sem lög leyfa. 

Einn mannanna var dæmdur til þriggja mánaða fangelsisvistar og annar til eins mánaða fangelsisvistar. Báðar fangelsisvistirnar skulu þó falla niður haldi þeir skilorði næstu tvö árin. Hinum mönnunum tveimur var ekki gerð sérstök refsing. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×