Fótbolti

Í sex leikja bann fyrir rasisma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dante Vanzeir spilar ekki með New York Red Bulls á næstunni.
Dante Vanzeir spilar ekki með New York Red Bulls á næstunni. getty/Ira L. Black

Framherji New York Red Bulls í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta hefur verið dæmdur í sex leikja bann fyrir rasisma. Auk bannsins fékk Vanzeir sekt og þá þarf hann að sækja fræðslunámskeið.

Dante Vanzeir beitti leikmann San Jose Earthquakes í leik liðanna á laugardaginn kynþáttaníði. Leikurinn var stöðvaður í stundarfjórðung eftir atvikið.

Þjálfari New York Red Bulls baðst afsökunar á að hafa ekki tekið Vanzeir af velli strax eftir atvikið, þrátt fyrir að þjálfari San Jose Earthquakes, Luchi Gonzalez, hafi óskað eftir því.

Vanzeir baðst afsökunar á þriðjudaginn og seinna var greint frá því að hann væri kominn í ótímabundið leyfi. Nú er ljóst að hann spilar ekki sex næstu leiki New York Red Bulls.

Vanzeir gekk í raðir New York Red Bulls frá Union í Belgíu fyrr á þessu ári. Hann hefur leikið einn leik fyrir belgíska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×