Umfjöllun og viðtöl: FH - Stjarnan 1-0 | Vuk Oskar hetjan þegar FH sigraði Stjörnuna

Hjörvar Ólafsson skrifar
Vuk Oskar Dimitrijevic fagnar markinu sem hann skoraði í leiknum. 
Vuk Oskar Dimitrijevic fagnar markinu sem hann skoraði í leiknum.  Vísir/Hulda Margrét

FH hafði betur með einu marki gegn engu þegar liðið fékk Stjörnuna í heimsókn á miðvöllinn í Kaplakrika, Nývang, í annarri umferð Bestu-deildar karla í fótbolta í dag.

Það var Vuk Oskar Dimitrijevic sem skoraði sigurmark FH eftir frábæran undirbúning Kjartans Henry Finnbogasonar eftir rúmlega klukkutíma leik. 

Leikmenn beggja liða eiga hrós skilið fyrir að ná að spila fínasta fótboltaleik við þær vallaraðastæður sem voru á frjálsíþróttavelli FH-inga í dag. 

Stjörumenn voru sterkari aðilinn framan af leik og Ísak Andri Sigurgeirsson nældi í vítaspyrnu þegar Eggert Gunnþór Jónsson braut á honum eftir tæplega 20 mínútna leik. 

Jóhann Árni Gunnarsson tók vítaspyrnuna en Sindri Kristinn Ólafsson gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna. Sindri Kristinn fékk dæmt á sig víti í jafntefli FH gegn Fram í fyrstu umferð deildarinnar og kvittaði fyrir það með þessari vörslu. 

Eggert Gunnþór Jónsson brýtur á Ísaki Andra Sigurgeirssyni. Vísir/Hulda Margrét
Eggert Gunnþór var ánægður með liðsfélaga sinni, Sindra Kristinn Ólafsson, sem bjargaði skinni hans. Vísir/Hulda Margrét

Staðan var markalaus í hálfleik en FH-liðið kom öflugra til leiks inn í seinni hálfleikinn og uppskar mark þegar rúmur klukkutími var liðinn af leiknum. 

Kjartan Henry komst þá upp að endamörkum lagði boltann niður á Vuk Oskar sem kláraði færið af stakri prýði. Vuk Oskar hefur nú skorað tvö mörk í fyrstu tveimur leikjum deildarinnar og Kjartan Henry skorað eitt og lagt upp annað. 

FH hefur fjögur stig eftir tvo leiki en Stjarnan er aftur á móti án stiga eftir fyrstu tvær umferðir deildarinnar og hefur ekki enn tekist að þenja netmöskvana í mörkum andstæðinga sinna. 

Heimir: Spiluðum mun betur í seinni hálfleik

„Við vorum ekki nógu beittir í fyrri hálfleik og förum vel yfir málin í hálfeik. Vuk Oskar var til að mynda öflugri í seinni hálfleiknum og það sama á við um fleiri leikmenn liðsins. 

Það er gaman að sjá hvað Vuk Oskar er að byrja mótið vel sem og í raun liðið allt. Þetta var seiglusigur og það er alltaf gott að ná að halda hreinu og fá þrjú stig," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, að leik loknum. 

„Sindri Kristinn gerði vel þegar hann varði vítið. Sindri veit það manna best að hann átti að gera betur þegar hann fékk á sig vítið á móti Fram. Að þessu sinni bjargaði Sindri okkur og hann hefur staðið sig vel, bæði í vetur og í fyrstu tveimur leikjum mótsins," sagði þjálfarinn margreyndi. „

„Við fengum fá færi á okkur í seinni hálfleik og vorum agaðir og duglegir. Ég var sérstaklega sáttur við að menn lögðu á sig grunnvinnuna sem er mikilvæg til þess að landa sigrum í höfn. Við erum ánægðir með uppskeruna hingað til og frammistöðuna í fyrstu tveimur leikjunum," sagði Heimir en FH hefur fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina. 

Heimir Guðjónsson var vitanlega sáttur í leikslok. Vísir/Hulda Margrét

Ágúst Þór: Fannst við eiga meira skilið

„Spilamennska okkar var bara fín, sérstaklega ef tekið er mið að þeim vallaraðstæðum sem FH bauð upp á í þessum leik. Mér fannst við eiga skilið allavega eitt stig og í raun bara sigurinn. Við náðum hins vegar ekki að nýta vítið sem við fengum og ekki önnur færi sem við sköpuðum og því fór sem fór," sagði Ágúst Þór Gylfason, þjáflari Stjörnunnar. 

„Við ræddum það fyrir leikinn að við ætluðum að rífa okkur upp og koma okkur af stað í þessu móti. Það tókst að vissu leyti en við erum ekki enn búnir að skora og erum stigalausir í þokkabót sem er að sjálfsögðu áhyggjuefni," sagði Ágúst Þór enn fremur. 

„Næst á dagskrá er bikarleikur á móti Eyjamönnum og við fáum tækifæri til þess að skilja eftir svekkelsið í deildinni og takast á við annað verkefni í annarri keppni. Nú fer okkar fókus bara á það að undirbúa þann leik og freista þess að gera betur en við höfum verið að gera í upphafi tímabilsins," sagði þjálfari Garðabæjarliðsins um framahaldið. 

Björn Berg Bryde og Hilmar Árni Halldórsson fóru báðir útaf velli vegna meiðsla í leiknum en Ágúst Þór sagði að ákveðið hefði verið að taka ekki áhættu með þá. Ekki væri vitað hversu alvarleg meiðslin væru. 

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Stjörnuliðsins, á hlíðarlínunni í leiknum í dag. Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann FH?

Vuk Oskar gerði gæfumuninn í jöfnum leik þar sem sigurinn gat lent hvoru megin sem var. Stjarnan fékk fleiri færi í fyrri hálfeik og þar á meðal var vítið sem Jóhann Árni brenndi af. FH hefði hins vegar getað bætt við fleiri mörkum undir lok leiksins en Gyrðir Hrafn Guðbrandsson fékk tvö upplögð marktækifæri undir lok leiksins.   

Hverjir sköruðu fram úr?

Vuk Oskar fer vel af stað á þessu móti en auk þess að skora fiskaði hann nokkur guld spjöld á leikmenn Stjörnunnar. Logi Hrafn Róbertsson og Björn Daníel Sverrisson áttu svo góðan leik inni á miðsvæðinu hjá FH. Eggert Aron Guðmundsson var frískur hjá Stjörnunni og Ísak Andri Sigurgeirsson átti nokkra góða spretti. 

Hvað gekk illa?

Stjörnumönnum gekk illa að binda endahnútinn á sóknir sínar og Joey Gibbs náði ekki að komast í takt við þennan leik. Stjarnan er ekki enn komin á blað í deildinni en liðið fékk nokkur góð færi í þess leik til þess að brjóta ísinn. 

Hvað gerist næst?

Stjanan fær ÍBV í heimsókn í 32 liða úrslitum Mjólkurbikarsins á miðvikudaginn kemur en kvöldið eftir sækir FH svo Ægi heim í Þorlákshöfn. 

Leikmenn FH fagna sigrinum með stuðningsmönnum sínum. Vísir/Hulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira