Körfubolti

Tap hjá Zaragoza gegn Murcia

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tryggvi Snær í leik með landsliðinu.
Tryggvi Snær í leik með landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Tryggvi Snær Hlinason og félagar hans í Zaragoza biðu lægri hlut gegn Murcia þegar liðin mættust í spænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í dag.

Heimalið Murcia byrjaði leikinn mun betur og gekk liðsmönnum Zaragoza illa að finna körfuna. Zaragoza skoraði aðeins átta stig í fyrsta leikhluta og staðan að honum loknum var 17-8. Skorið var áfram fremur lágt í öðrum leikhluta en leikurinn þó jafnari.

Í hálfleik var staðan 30-23 Murcia í vil og leikurinn ennþá galopinn. Gestirnir byrjuðu þriðja leikhluta hins vegar af krafti. Zaragoza jafnaði metin í 32-32 og skiptust liðin á forystunni eftir það og að fjórðungnum loknum var staðan 48-48.

Murcia náði sex stiga forskoti fljótlega í fjórða leikhluta og gekk gestunum erfiðlega að brúa það bil og tókst það aldrei. Murcia kláraði leikinn af vítalínunni og vann að lokum 79-74 sigur.

Tryggvi Snær Hlinason lék í rúmar 26 mínútur í leiknum, skoraði átta stig og tók fjögur fráköst.

Zaragoza er í tólfta sæti af átjan í deildinni og er átta stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×