Erlent

Tugir sjúk­linga látnir í bruna á sjúkra­húsi í Beijing

Kjartan Kjartansson skrifar
Á annað hundrað manns þurfti að flýja Changfeng-sjúkrahúsið þegar kviknaði í því. Sumum þeirra þurfti að bjarga af loftræstieiningum utan á byggingunni.
Á annað hundrað manns þurfti að flýja Changfeng-sjúkrahúsið þegar kviknaði í því. Sumum þeirra þurfti að bjarga af loftræstieiningum utan á byggingunni. AP/Andy Wong

Að minnsta kosti 29 manns eru látnir, þar á meðal 26 sjúklingar, eftir að eldur kom upp á sjúkrahúsi í Beijing í Kína í gær. Tugir manna hafa verið handteknir vegna brunans, þar á meðal forstjóri og næstráðandi sjúkrahússins.

Eldur kviknaði í Chanfeng-einkasjúkrahúsinu síðdegis í gær. Fólk flúði meðal annars út um glugga með því að hnýta lök saman. Auk sjúklinganna 26 eru hjúkrunarfræðingur, sjúkraliði og aðstandandi sjúklings á meðal þeirra látnu, að sögn AP-fréttastofunnar. Þrír eru sagðir þungt haldnir af sárum sínum en alls eru 39 manns til meðferðar.

Upptök eldsins eru enn í rannsókn en grunur leikur á að hann hafi kviknað út frá neistum frá logsuðutæki verkamanns sem vann við framkvæmdir á legudeild sjúkrahússins. Á meðal tólf manna sem voru handteknir vegna eldsvoðans var verkstjóri vinnuflokksins.

Algengt er að öryggisreglur séu virtar að vettugi í Kína. Slys verða gjarnan á framkvæmdasvæðum vegna lélegs öryggisviðbúnaðar og mikillar yfirvinnu verkamanna. Embættismönnum er síðan mútað til þess að líta fram hjá brotum á reglum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×