Innlent

Ökumaður vespu ekki grunaður um annað en ofsaakstur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mikill viðbúnaður lögreglu á vettvangi við handtökuna vakti athygli vegfarenda, sem var brugðið.
Mikill viðbúnaður lögreglu á vettvangi við handtökuna vakti athygli vegfarenda, sem var brugðið. Aðsend

Ökumaður á vespu sem meðal annars var stöðvaður af sérsveit ríkislögreglustjóra í Borgartúni í gær sinnti ekki stöðvunarskyldu eftir ofsaakstur. Málið er ekki víðtækara en það að sögn lögreglu en vegfarendum í Borgartúni var brugðið vegna hamagangsins.

Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að ökumaður vespunnar hafi keyrt of hratt þegar umferðardeild lögreglu hafi haft afskipti af honum. Hann hafi ekki farið að fyrirmælum lögreglu við að stöðva og reynt að koma sér undan, með tilheyrandi hættu fyrir vegfarendur.

Athygli vakti að sérsveit ríkislögreglustjóra tók þátt í handtökunni á sérútbúnum jeppa. Sænsk fjölskylda lýsti handtökunni í samtali við mbl.is og sagðist hafa verið illa brugðið.

Þar var fjölskyldufaðir á göngu með foreldrum sínum og syni í barnavagni þegar ökumaður vespunnar keyrði á ofsahraða undan tveimur lögreglumótorhjólum. Segist fjölskyldan hafa verið logandi hrædd um að ökumaðurinn á vespunni myndi keyra á sig.

Að sögn Árna Friðleifssonar, aðalvarðstjóra umferðardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var engin önnur ástæða fyrir því að sérsveitin hafi skorist í leikinn en ofsahraði ökumannsins.

„Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra eru lögreglumenn eins og aðrir og taka þátt í lögregluaðgerðum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×