Fótbolti

Van Nistelrooy dansaði í klefanum eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Ruud van Nistelrooy fagnar sigri í bikarúrslitaleiknum.
 Ruud van Nistelrooy fagnar sigri í bikarúrslitaleiknum. Getty/Herman Dingler

Hollenska knattspyrnugoðsögnin Ruud van Nistelrooy vann marga titla með PSV, Manchester United og Real Madrid á sínum leikmannaferli og nú er hann farinn að vinna titla sem þjálfari.

Van Nistelrooy tók við PSV Eindhoven fyrir ári síðan og hann gerði félagið að bikarmeisturum um helgina.

PSV hefur unnið fjóra síðustu deildarleiki sína en er samt í öðru sætinu, átta stigum á eftir toppliði Feyenoord.

Liðið tryggði sér bikarmeistaratitilinn á De Kuip í Rotterdam á sunnudaginn. PSV vann þá Ajax í vítaspyrnukeppni eftir að Ajax hafði komist í 1-0 í leiknum sjálfum. Thorgan Hazard jafnaði metin og PSV vann síðan vítakeppnina 3-2.

Þetta er annað árið í röð og í ellefta skiptið alls sem PSV verður bikarmeistari.

Van Nistelrooy kom fyrst til PSV Eindhoven þegar hann var 22 ára og spilaði þar í þrjú tímabil sem leikmaður áður en hann fór til Englands. Van Nistelrooy varð tvisvar hollenskur meistari með PSV en náði aldrei að verða bikarmeistari áður en fór til Manchester United.

Hann varð hins vegar bikarmeistari með United árið 2004 þar sem hann skoraði tvö mörk í úrslitaleiknum á móti Millwall.

Eftir leikinn lá mjög vel á hinum 46 ára gamla Van Nistelrooy sem sést hér dansa í klefanum við mikinn fögnuð leikmanna sinna. Fyrst myndir af kappanum en til að sjá myndbandið þarf að fletta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×