Íslenski boltinn

HK-ingar frumsýna nýja Sampdoria-búninginn sinn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leifur Andri Leifsson og Ívar Örn Jónsson í nýja búningnum.
Leifur Andri Leifsson og Ívar Örn Jónsson í nýja búningnum. Instagram/@hkfotbolti

HK-liðið mætir KR á nýstárlegum stað í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld þegar Vesturbæingar taka á móti Kópavogsliðinu út á Seltjarnarnesi.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er einn af fjórum leikjum í fimmtu umferð deildarinnar sem fara fram í kvöld.

KR-völlurinn er ekki tilbúinn að því færðu KR-ingar heimaleikinn sinn út í næsta bæjarfélag. Það er reyndar ekki langt að fara enda stutt úr Frostaskjólinu yfir á á Seltjarnarnesi sem er heimavöllur Gróttu.

Þetta verður fyrsti heimaleikur Knattspyrnufélags Reykjavíkur í efstu deild sem er ekki spilaður í Reykjavík. KR hefur spilað fjölmarga heimaleiki í Laugardalnum, sem og á gamla Melavellinum en félagið hefur spilað í Frostaskjólinu frá 1983.

Það er ekki það eina nýja við þennan leik því HK mun mæta til leiks í nýjum varabúningum.

Þeir eru nú með þverrönd á búningi sínum að hætti ítalska félagsins Sampdoria. Búningurinn er blár fyrir utan þverröndina sem er í HK-litunum eða rauður og hvítur.

HK sagði frá nýja búningi sínum á miðlum sínum en það muna margir eftir Sampdoria liðinu á gullaldarárum þessa þegar liðið varð ítalskur meistari á tíunda áratugnum með þá Gianluca Vialli og Roberto Mancini í fararbroddi.

HK hefur náð í fjögur stig út úr tveimur síðustu útileikjum sínum á móti KR í efstu deild (1-1 jafntefli sumarið 2021 og 3-0 sigur sumarið 2020). Nú er að sjá hvernig gengur hjá Kópavogsbúum á móti KR á nýjum stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×