Fótbolti

PSG fordæmir stuðningsmennina sem sátu um heimili Neymars

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Paris Saint-Germain eru langt frá því að vera sáttir við Brasilíumanninn Neymar.
Stuðningsmenn Paris Saint-Germain eru langt frá því að vera sáttir við Brasilíumanninn Neymar. vísir/getty

Paris Saint-Germain hefur fordæmt þá stuðningsmenn sem söfnuðust saman fyrir utan heimili hans og hvöttu hann til að yfirgefa félagið.

Stuðningsmenn PSG eru ósáttir við gang mála hjá frönsku meisturunum. Þeir söfnuðust saman fyrir höfuðstöðvar félagsins í gær og kröfðust þess að stjórnin myndi segja af sér.

Annar hópur kom saman fyrir utan heimili Neymars og sögðu honum að koma sér í burtu frá PSG. Félagið hefur nú slegið á puttana á þessum stuðningsmönnum.

„PSG fordæmir móðgandi og óásættanlega framkomu lítils hóps stuðningsmanna á miðvikudaginn. Burtséð frá ólíkum skoðunum, þá er ekkert sem réttlætir svona framkomu. Félagið styður alla leikmenn og starfsfólk sem verður fyrir barðinu á svona framkomu,“ sagði í yfirlýsingu frá félaginu.

PSG tapaði fyrir Lorient um helgina og er nú aðeins með fimm stiga forskot á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar.

PSG setti Lionel Messi síðan í tveggja vikna bann fyrir að fara til Sádí-Arabíu í leyfisleysi. Í gær bárust svo fréttir af því að Argentínumaðurinn myndi yfirgefa PSG eftir tímabilið.

Neymar hefur leikið 29 leiki með PSG í öllum keppnum á tímabilinu, skorað átján mörk og lagt upp sautján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×