Innlent

Þriðji fram­kvæmda­stjóri Sið­menntar á rétt rúmu ári

Kjartan Kjartansson skrifar
Eyjólfur Örn Snjólfsson, nýr framkvæmdastjóri Siðmenntar.
Eyjólfur Örn Snjólfsson, nýr framkvæmdastjóri Siðmenntar. Siðmennt

Lífsskoðunarfélagið Siðmennt réði Eyjólf Örn Snjólfsson í stöðu framkvæmdastjóra. Eyjólfur starfaði síðast sem framkvæmdastjóri Íþróttafélags Reykjavíkur (ÍR). Hann er þriðji framkvæmdastjóri félagsins á rétt rúmu ári.

Greint er frá ráðningu Eyjólfs á vefsíðu Siðmenntar. Þar kemur fram að hann hafi lagt stund á rafmagns- og tölvuverkfræði og sé með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands. Eftir háskólanámið hafi hann unnið í fjármálageiranum en síðan sem sérfræðingur og stjórnandi í öðrum geirum.

Haft er eftir Eyjólfi í tilkynningunni að hann sé skírður og fermdur í Þjóðkirkjunni en að hann aðhyllist lífsskoðunarstefnu húmanista. Hann hafi skráð sig í Siðmennt til þess að sóknargjöld hans rynnu til félagsins í síðustu viku.

Siðmennt er sjötta fjölmennasta trú- eða lífsskoðunarfélag landsins með hátt í 4.800 félaga samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Örar mannabreytingar hafa verið hjá Siðmennt síðasta rúma árið. Siggeiri F. Ævarssyni var sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra í maí í fyrra. Inga Straumland, formaður Siðmenntar, sagði að uppsögnin tengdist breytingum á starfi félagsins samhliða fjölgun félagsmanna.

Sigþrúður Guðmundsdóttir tók við starfinu af Siggeiri í júní en hún var áður framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. Í byrjun apríl greindi Siðmennt frá því að félagið auglýsti eftir nýjum framkvæmdastjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×