Sport

„Við ætlum að vera í topp sex“

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA.
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA. Vísir/Vilhelm

„Þetta er mikil léttir og ég er gríðarlega ánægður með mitt lið í dag. Vilji, gæði, skipulag og agað spil skóp þennan sigur.“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þór/KA eftir góðan 3-0 sigur á Selfoss á Þórsvellinum í dag. 

„Við sköpuðum okkur fullt af færum og skorum tvö frábær mörk í fyrri hálfleik. Mínar stelpur voru mjög ákveðnar í sínum aðgerðum, þegar við vinnum boltann að þá förum við í ákveðin svæði og mér fannst við skapa fullt af færum til að skora mörk. Við keyrðum síðan síðasta naglann í þetta í síðari hálfleik með markinu frá Tahnai.“

Þór/KA skoraði tvö mörk á fyrsta korterinu í leiknum og fyrri hálfleikur var eign heimakvenna. Gestirnir komu beinskeyttari inn í síðari hálfleikinn og ógnuðu marki Þór/KA á fyrstu tíu mínútum en Þór/KA var fyrri til að skora þetta mikilvæga þriðja markið í þessum leik. 

„Selfoss er með hörku lið og þær eru mjög hættulegar og beinskeyttar en við sjáum að sjálfstraustið er ekki í botni hjá þeim. Við vorum ekki á ósvipuðum stað fyrir þennan leik þar sem það er líka búið að ganga hægt og illa hjá okkur undanfarið. Það fer alveg í hausinn á leikmönnum þannig það var mjög mikilvægt að ná inn þessu þriðja marki þótt mér fannst við alveg vera með leikinn í okkar höndum fyrir það.“

Una Móeiður Hlynsdóttir kom inn í byrjunarlið Þór/KA og var þeirra besti leikmaður á vellinum í dag, skoraði fyrsta markið og lét vörn Selfoss hafa mikið fyrir sér. 

„Við höfum saknað Unu Móeiði eins og annarra leikmanna sem hafa verið meiddar hjá okkur. Hún er ofboðslega öflugur sóknarmaður og gerir ótrúlega mikið inn á vellinum. Það er rosalega erfitt að spila á móti henni og ég held að Selfoss hafi fundið það í dag, svo gerir hún líka leikmenn í kringum sig betri. Það býr til breidd að fá hana úr þessum meiðslum, við viljum hafa samkeppni um stöður og mér finnst hópurinn alltaf vera að þéttast og verða betri.“

Jóhann var ánægður með stigin en minnti sömuleiðis á góða byrjun liðsins í upphafi móts sem aðstoði við það að liðið sé allavega tímabundið komið upp í fjórða sætið.

„Við náum mest þremur stigum í einu og sem betur fer getur engin tekið þau af okkur. Þannig við erum með þessi stig sem við fengum fyrir góðan byrjun á mótinu, þó það hafi gengið aðeins á fótinn í síðustu þremur leikjum þá bara höldum við áfram þessari stigasöfnun. Okkar markmið er það sama, við ætlum að vera í topp sex sætunum og ef við höldum áfram svona að þá eigum við góðan möguleika á því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×