Sport

Mynd­band: Bar­­dagi Maywe­at­her og barna­barns mafíósans Gotti endaði með hópslags­­málum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það varð allt vitlaust.
Það varð allt vitlaust. Getty Images/Skjáskot

Hnefaleikakappinn fyrrverandi Floyd Mayweather og John Gotti III mættust í sýningarbardaga um helgina sem fór algjörlega úr böndunum. Gotti III er barnabarn John Joseph Gotti Jr., alræmds mafíósa frá New York í Bandaríkjunum.

Mayweather er einn frægasti hnefaleikakappi síðari ára en hann lagði hanskana á hilluna árið 2017 eftir að hafa unnið alla 50 bardaga sína á ferlinum. Síðan þá hefur hann keppt við hina ýmsu bardagakappa og samfélagsmiðlastjörnur í svokölluðum sýningarbardögum.

Dómarinn Kenny Bayliss stöðvaði bardagann í sjöttu lotu, Gotti III til mikils ama. Hann vék sér síðan að hinum 46 ára gamla Mayweather og lét höggin dynja. Starfslið beggja óð inn í hringinn og réð Bayliss ekkert við mannskapinn. Talið er að um 60 manns hafi tekið þátt í slagsmálunum sem náðu alla leið inn í búningsklefa hnefaleikakappanna.

Lögregla þurfti að tæma leikvanginn og hótaði að leggja fram ákærur ef fólk myndi ekki koma sér hið snarasta.

Eftir bardagann – sem fram fór í FLA Live-leikvanginum í Flórída - birti Mayweather myndband á samfélagsmiðlum þar sem hann sagði að þetta væri ástæðan fyrir því að hann fengi svona mikið borgað, því hann biði alltaf upp á sýningu.

Hinn 30 ára gamli Gotti III er barnabarn hins alræmda John Joseph Gotti Jr. Sá tók yfir Gambino-glæpafjölskyldunni árið 1985 eftir að hafa skipulagt morðið á þáverandi stjóra fjölskyldunnar, Paul Castellano.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×