Fótbolti

Stjórnendur PSG æfir en Mbappé segir þá ekki eiga að vera hissa

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi er þegar farinn frá PSG og nú virðist önnur helsta stórstjarna liðsins á förum.
Lionel Messi er þegar farinn frá PSG og nú virðist önnur helsta stórstjarna liðsins á förum. EPA-EFE/TERESA SUAREZ

Franska knattspyrnustjarnan Kylian Mbappé hefur staðfest við frönsku fréttaveituna AFP að hann muni ekki framlengja samning sinn við PSG. Hann segist raunar hafa gert félaginu grein fyrir því fyrir tæpu ári síðan. Frétt um að hann vilji fara til Real Madrid í sumar er hins vegar röng, að sögn Mbappé.

Mbappé á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við frönsku meistarana en var með möguleika á að framlengja samninginn um eitt ár. Þann möguleika ákvað hann að nýta ekki, svo að PSG þarf nú að selja Mbappé til að missa hann ekki ókeypis frá sér næsta sumar.

Mbappé sendi PSG bréf síðdegis í gær til að staðfesta að hann myndi ekki framlengja samning sinn.

Fabrizio Romano, helsti sérfræðingur í félagaskiptum stærstu stjarna heims, sagði í gærkvöld að það hefði komið eigendum PSG á óvart að fá bréfið, staðan væri mjög viðkvæm og að mikil reiði væri á meðal þeirra sem stjórnuðu franska félaginu.

Í yfirlýsingu sem Mbappé og hans fólk sendi AFP í dag segir að bréfið hafi aðeins verið til að staðfesta það sem hafi verið vitað. Félagið hafi „verið upplýst þann 15. júlí 2022“ um að hann myndi ekki framlengja samninginn.

Í yfirlýsingunni segir að engar viðræður um framlengingu á samningi hafi farið fram síðasta árið. Mbappé hafi hins vegar ekki farið fram á að losna frá PSG í sumar heldur aðeins viljað staðfesta að hann yrði ekki lengur en til sumarsins 2024 hjá félaginu.

Mbappé hefur spilað með PSG frá árinu 2018, sama ári og hann varð heimsmeistari með franska landsliðinu. Þessi 24 ára sóknarmaður hefur ítrekað verið orðaður við Real Madrid síðustu misseri og ljóst er að spænska félagið er í leit að sóknarmanni eftir brotthvarf Karims Benzema.

Mbappé sagði hins vegar á Twitter í dag að frétt Le Parisien um að hann vildi komast til Real Madrid væri hreinasta lygi. Sér liði vel hjá PSG og hann vildi klára síðasta árið hjá félaginu, en stefna félagsins er hins vegar að selja hann ef ekki tekst að gera nýjan samning.


Tengdar fréttir

Mbappé mun ekki fram­lengja í París

Kylian Mbappé, stórstjarna Frakklandsmeistara París Saint-Germain, hefur tilkynnt félaginu að hann muni ekki framlengja samning sinn sem rennur út sumarið 2024. Ákvörðunin gæti leitt til þess að PSG ákveði að selja leikmanninn í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×